131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[16:22]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég og hv. þm. hljótum að vera alveg sammála um að það versta sem við pólitíkusar gerum fólki er að tala tungum tveim. Það versta sem við gerum er að gefa hálfgildings loforð, ýja að einu og gefa hitt til kynna en meina ekkert með því.

Ég veit að hv. þm. sem er tiltölulega ung að árum vill að við tölum skýrt í þessum ræðustól. Hún gerði það því miður ekki. Ég trúi því að það hafi verið mistök af hennar hálfu. Það versta sem hægt er að gera er að ýja að því að menn muni kannski, ef og ef kringumstæður eru þannig, gera eitthvað meira en sagt er fyrir um.

Er það ekki alveg skýrt, herra forseti, að Framsóknarflokkurinn hefur fram að þessu ekki haft það á sinni stefnuskrá, hvorki fyrir kosningar né eftir kosningar, að lækka matvöruverð með því að lækka virðisaukastigið úr 14% í 7%? Er það ekki alveg skýrt? Og var ekki hv. þm. að staðfesta það áðan að vilji hennar stendur ekki til þess heldur að gera eitthvað annað? Er það ekki alveg skýrt? Það eru ekki fráteknir peningar á þessu kjörtímabili til að fara þessa leið. Er það ekki alveg skýrt?

Ég vænti þess því að hv. þm. komi og staðfesti þetta bara einfaldlega og segi hér við okkur inni og þjóðina að það sé ekki á prógrammi forsætisráðherra né Framsóknarflokksins að fara þessa leið. Þá vitum við það. Þannig eigum við að takast á í pólitík. Við eigum ekki að lofa svona upp í ermina á okkur að kannski ef einhverjir nýir peningar detta af himnum ofan og ef þetta leggst fyrir okkur þannig þá megi skoða þetta og athuga. Það er bara ljótur leikur.

Herra forseti. Ég hef tekið eftir því í þessari umræðu að tveir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt hér orð í belg. Mér virðist eins og það sé ekki bara Framsóknarflokkurinn sem dragi lappirnar og sé andvígur því að lækka matvöruverð í landinu heldur finna líka boðberar tíðindanna fyrir kosningar, þeir sjálfstæðismenn, málinu allt til foráttu og þá ekki síst hv. 2. þm. Norðausturkjördæmis sem birtist nú hér í dyrunum.