131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[16:53]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Á einni mínútu gefst mér ekki tækifæri til að fara í sagnfræði, ég hef ekki tíma til þess að rekja það af hverju íhaldið var á móti vökulögum, eða af hverju það var á móti almannatryggingum, á móti atvinnuleysistryggingum o.s.frv. Ég hefði ekki tíma til þess að rekja samskipti Ingólfs Jónsson og Gylfa Þ. Gíslasonar.

Ég ætla hins vegar að fara nær í tímann því hv. þm., 2. þm. Norðausturkjördæmis, kom hvergi að kjarna málsins í ræðu sinni, nefnilega því að hann og flokkur hans lofuðu því fyrir hálfu öðru ári síðan í kosningabaráttu að gera nákvæmlega það sem verið er að leggja til í tillögunni sem við erum að fjalla um.

Því vil ég spyrja hann: Hvernig stendur á því að hann sem talsmaður Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu er núna allt í einu á móti því að lækka matarverðið í landinu með því að lækka virðisaukaskattinn á matvörur úr 14% í 7%, en var með því fyrir hálfu öðru ári síðan? Var hann og flokkur hans að blekkja kjósendur á þeim tíma? Var þetta bara kosningabrella eins og oft áður, herra forseti?