131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[16:58]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér hefði þótt drengilegt af hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að segja hvaða ummæli ég hafði rangt eftir til þess að það komi þá fram, í staðinn fyrir að dylgja um það. Það er auðvitað alltaf hægt að gera slíkt. En skemmtilegra er nú að reyna að hafa reiður á því hvað um sé að ræða ef maður brigslar öðrum um ósannindi.

Eins og ég sagði áðan er núna verið að vinna að útfærslu á því hvernig staðið skuli að skattalækkunum. Ég hef ekki verið í undirbúningshópnum sem að því vinnur og af þeim sökum get ég ekki upplýst þingið um það. Og þó að ég væri í hópnum væri ég bundinn trúnaðareiði og mundi ekki upplýsa þingið um það.