131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[17:04]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst sérstök ástæða til að benda á það sem skýrt er dregið fram í skýrslu Hagfræðistofnunar háskólans, þ.e. að við veitum um 12 milljarða kr. í stuðning af ýmsu tagi til landbúnaðarins. Þar segir að helmingurinn af þeim stuðningi sé tekinn í matarverðinu. Við erum þá að tala um allt að 6 milljarða.

Hér erum við að tala um lækkun á matarskatti um 6,5%, úr 14% í 7%, sem er verulegur ávinningur. Þessi ábending Hagfræðistofnunar þýðir að hægt væri að ná fram sömu fjárhæð í lækkun á matarverði. Bent er á að það sé betri kostur að veita stuðninginn með beingreiðslum. Það er ekki verið að tala um að afnema stuðninginn. Hins vegar er talað um að færa þann stuðning sem á að viðhafa yfir í beingreiðslur en ekki að taka hann í matarverðinu eins og gert er í dag.

Að öðru leyti þá hvet ég þingmenn til að lesa skýrslu Hagfræðistofnunar. Ég mun leita allra leiða til að koma henni í umræður á Alþingi þótt hún sé ekki þingskjal þessa vetrar.