131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Samkeppnishæfni Íbúðalánasjóðs.

79. mál
[13:31]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þær spurningar sem ég beini til félagsmálaráðherra miða að því að fá fram afstöðu ráðherrans til aðgerða sem styrkja mundu verulega samkeppnishæfni Íbúðalánasjóðs í þeirri jákvæðu samkeppni sem nú er orðin á fasteignalánamarkaðnum. Skoðun mín er sú að nauðsynlegt sé að Íbúðalánasjóður standi vel í þeirri samkeppni því að mikilvægt er að innlánsstofnanir sem komið hafa með afar jákvæðum hætti inn á markaðinn með vaxtalækkunum hafi aðhald frá Íbúðalánasjóði. Ófært er ef innkoma bankanna er bara tímabundin meðan bankarnir eru að hrista af sér Íbúðalánasjóð með líkum hætti og tryggingafélögin gerðu við Félag íslenskra bifreiðaeigenda á sínum tíma. Þá komu tryggingafélögin inn með tímabundna lækkun á bifreiðatryggingum í samkeppni við lágar tryggingar FÍB en allt fór í sama horfið þegar tryggingafélögin höfðu verðlagt FÍB út af markaðnum. Því verður Íbúðalánasjóður að sýna að hann geti veitt lánastofnunum öfluga samkeppni og um leið aðhald til hagsbóta fyrir íbúðakaupendur en ljóst er að óbreyttu að draga mun verulega úr markaðshlutdeild Íbúðalánasjóðs í lánveitingum vegna íbúðakaupa og enn er ekki komin sú reynsla á þessa jákvæðu innkomu bankanna að treysta megi að bankarnir bjóði til frambúðar fasteignalán með lágum vöxtum. Ég tel að ráðherrann eigi þegar í stað að beita sér fyrir því að viðmið lánveitinga verði hækkað úr 85% af brunabótamati í 100% eins og hann hefur heimild til samkvæmt reglugerð. Það mundi styrkja Íbúðalánasjóð verulega í samkeppni við bankana sem nú lána ótakmarkaðar fjárveitingar án nokkurs þaks rúmist þær á 1. veðrétti og séu innan 80% af markaðsverði íbúða, þó ekki hærra en sem nemur brunabótamatinu.

Í 2. tölulið fyrirspurnarinnar er spurt um áætlanir ráðherra um hækkun á lánshlutfalli og hvaða áætlanir liggi fyrir um hámarksfjárhæð og hvort mat Seðlabanka liggi fyrir á áhrifum þeirra breytinga.

Þá er spurt um hvort ráðherra sé reiðubúinn að auka sveigjanleika varðandi veðröð annarra lána á undan lánum frá Íbúðalánasjóði. Mistúlka má framsetningu spurningarinnar þannig að einungis sé átt við nýju ÍLS-veðbréfin en hér er átt við öll eldri lán hjá Íbúðalánasjóði. Eins og fyrirkomulagið er núna eru þeir sem vilja einungis skuldbreyta dýrum bankalánum oft tilneyddir til þess að skuldbreyta öllum sínum lánum vegna kröfu bankanna um að lánin séu á 1. veðrétti. Ég spyr því ráðherra hvort hann sé reiðubúinn að auka sveigjanleikann í veðmörkum þannig að hægt sé að færa á 1. veðrétt endurfjármögnuð lán að því tilskildu að heildarfjárhæð lána á 1. og 2. veðrétti fari ekki yfir tilskilin veðmörk hjá Íbúðabúðalánasjóði. Ég er sannfærð um að það mundi draga verulega úr því að fólk sé að endurfjármagna t.d. húsbréfalán hjá Íbúðalánasjóði og er ótækt að hafa slíkar girðingar ef fólk vill einungis fjármagna lán upp á 1–2 millj. sem eru með afar óhagstæðum vöxtum.