131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Samkeppnishæfni Íbúðalánasjóðs.

79. mál
[13:34]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Viðskiptabankar og sparisjóðir hafa nú síðustu vikurnar boðið lánskjör til kaupa á íbúðarhúsnæði sem eru áþekk því sem Íbúðalánasjóður býður. Þetta gerðist eftir að Eftirlitsstofnun EFTA komst að þeirri niðurstöðu að starfskilyrði Íbúðaránasjóðs og fyrirhuguð hækkun hámarksláns brytu ekki gegn EES-samningnum. Þar með var staðfest af hálfu ESA að stefnumörkun íslenskra stjórnvalda í húsnæðismálum er raunverulega til þess fallin að tryggja jafnrétti landsmanna í húsnæðismálum óháð búsetu og efnahag. Ég á von á því að hér eftir sem hingað til takist að viðhalda þeirri breiðu pólitísku samstöðu sem hefur verið um þá stefnumörkun.

Það er fagnaðarefni að bankarnir skuli loksins stíga það skref að bjóða sambærileg kjör og Íbúðalánasjóður en það breytir ekki því að sjóðurinn gegnir áfram mikilvægu hlutverki í almannaþágu. Skapa þarf skilyrði til þess að bankarnir geti haldið áfram að auka hlutdeild sína á íbúðalánamarkaði á sama tíma og Íbúðalánasjóður verði áfram til reiðu sem raunverulegur valkostur í lánveitingum í samræmi við lögbundið hlutverk hans. Hafi einhver efast um nauðsynlegt aðhaldshlutverk Íbúðalánasjóðs á þessum markaði ættu atburðir ágústmánaðar að nægja til að eyða öllum efa hjá réttsýnu fólki.

Bankarnir gera nú kröfu um 1. veðrétt sem forsendu hagstæðra íbúðalána. Þetta skilyrði veldur því að mikilvægt er að hámarkslán Íbúðalánasjóðs sé nægilega hátt til að kaupendur hóflegs íbúðarhúsnæðis eigi möguleika á heildstæðri fjármögnun hjá Íbúðalánasjóði því ella þarf að sækja viðbótarfjármögnun á mun lakari kjörum en bankarnir bjóða fái þeir 1. veðrétt. Þess vegna er afar mikilvægt, hæstv. forseti, að fjárhæð hámarkslánsins þróist áfram með þeim hætti að lánafyrirgreiðsla Íbúðalánasjóðs sé raunverulegur valkostur við kaup á hóflegu íbúðarhúsnæði. Einungis þannig verður tryggt til lengri tíma að markmið um áframhaldandi jöfn tækifæri til lántöku óháð búsetu og efnahag náist. Um leið ber mér sem ráðherra húsnæðismála að gæta hagsmuna ríkisins sem eiganda Íbúðalánasjóðs og tryggja að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar.

Hæstv. forseti. Eins og hv. fyrirspyrjandi tel ég nauðsynlegt að treysta samkeppnishæfni Íbúðalánasjóðs í breyttu umhverfi með þeim hætti að hann sé betur í stakk búinn til að sinna því hlutverki sem stjórnvöld ætla honum. Aðgerð í því eru að hækka viðmið lánveitinga úr 85% af brunabótamati í 100%. Svarið við þessari spurningu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur er því já. Drög að reglugerð þessa efnis liggja nú þegar fyrir og bíða kostnaðarumsagnar fjármálaráðuneytis.

Þingmaðurinn spyr enn fremur um hækkun á lánshlutfalli og hámarksfjárhæð íbúðabréfa og hvort fyrir liggi mat Seðlabanka á áhrifum breytinganna. Eins og þingheimi er eflaust kunnugt um hefur hámarksfjárhæð almennra íbúðalána hjá Íbúðalánasjóði hækkað tvívegis á þessu ári og er nú 11,5 millj. kr. bæði af nýju og notuðu húsnæði. Þessar hækkanir eru liður í undirbúningi þess að hækka lánshlutfall almennra íbúðalána í 90% af kaupverði húsnæðis. Við gildistöku frumvarps til breytinga á lögum um húsnæðismál sem lagt verður fram á Alþingi á næstu dögum er stefnt að því að fjárhæðin hækki enn frekar og síðan verði ákveðnar hækkanir í þrepum á kjörtímabilinu. Leitað var eftir áliti Seðlabanka Íslands sem skilaði skýrslu 28. júní sl. um líkleg efnahagsleg áhrif breytinganna. Hið sama gerði efnahagsskrifstofa fjármálaráðuneytisins 2. apríl sl. Síðan skýrslurnar voru gerðar hafa orðið miklar breytingar á íbúðalánamarkaðnum sem gætu leitt til hækkunar fasteignaverðs óháð því hvort lánshlutfall og hámarkslánsfjárhæð Íbúðalánasjóðs hækkar á næstu mánuðum. Hækkun lánshlutfalls og hámarksfjárhæðar Íbúðalánasjóðs við núverandi aðstæður mun því að öllum líkindum hafa hverfandi áhrif á lána- og fasteignamarkaðinn a.m.k. á þeim svæðum þar sem lánaframboðs banka og sparisjóða gætir.

Enn fremur er spurt um aukinn sveigjanleika varðandi veðröð lána. Ég get upplýst það, hæstv. forseti, að í áðurnefndu frumvarpi er miðað við það sem meginreglu að lán frá Íbúðalánasjóði hvíli á 1. veðrétti en að uppreiknaðar eftirstöðvar framar áhvílandi lána dragist frá lánsfjárhæð ef lánið er aftar í veðröðinni. Mikilvægt er að þau góðu lánskjör sem Íbúðalánasjóður getur veitt og eru árangur breytinga á fjármögnun sjóðsins sem tóku gildi 1. júlí sl. skili sér til lántakendanna sjálfra en ekki til lánveitendanna sem hingað til hafa getað veitt lán á veðréttum á undan Íbúðalánasjóði og þar með notið óbeinnar ríkisábyrgðar á viðkomandi lánum. Í núverandi kerfi er ekki gerð krafa um 1. veðrétt. Íbúðalánasjóður getur fallist á endurfjármögnun skulda sem standa framar áhvílandi lánum sjóðsins svo fremi að um endurfjármögnun sömu fjárhæðar sé að ræða. Breyting af því tagi sem þingmaðurinn spyr um felur í sér ákveðið fráhvarf frá þeirri meginreglu sem beitt hefur verið þess efnis að lán sjóðsins standi einungis til kaupa á íbúðarhúsnæði. Ástæða þeirrar reglu er sú að lán Íbúðalánasjóðs hafa almennt verið hagstæðari en lán á almennum markaði. Að sjálfsögðu gerir sú samkeppni sem nú ríkir á íbúðalánamarkaði það að verkum, hæstv. forseti, að bæði stjórn, starfslið Íbúðalánasjóðs og ráðuneyti húsnæðismála þurfa að sýna árvekni í eftirliti með stöðu sjóðsins. Staða sjóðsins í samkeppni á íbúðalánamarkaði verður að mínu viti best tryggð með því að hámarkslánin þróist áfram með eðlilegum hætti.