131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Samkeppnishæfni Íbúðalánasjóðs.

79. mál
[13:40]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en ég hef verið að reyna að átta mig á því sem hæstv. ráðherra segir hér, að það sé mikilvægt að efla samkeppnishæfni Íbúðalánasjóðs í þeirri samkeppni sem nú er á bankamarkaði, en á hinn bóginn hafa menn sagt að sala bankanna hafi gert það að verkum að sú staða sé nú á bankamarkaði að einstaklingar hafi aðgang að betri lánakjörum en oft áður.

Það sem ég er að reyna að draga fram, virðulegi forseti, er hvort hæstv. ráðherra sé að segja að ríkið sé á leiðinni í samkeppni við bankana. Eru það viðbrögð við því sem er að gerast eða er það til að tryggja verðmæti Íbúðalánasjóðs til einhvers tíma og að þá muni ríkið væntanlega draga sig út af þessum markaði?

Það er afar erfitt að átta sig á því, virðulegi forseti, í ljósi þessa svars á hvaða ferðalagi hæstv. ráðherra er og mér þætti vænt um ef það mundi skýrast síðar í umræðunni.