131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Samkeppnishæfni Íbúðalánasjóðs.

79. mál
[13:42]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna svörum ráðherra sem upplýsir hér að það liggi á borðum hans að breyta reglugerð þannig að það er verið að hækka viðmið vegna lánveitinga úr 85% af brunabótamati í 100% og það mun hafa veruleg áhrif til þess að auka samkeppnishæfni Íbúðalánasjóðs. Það ætti auðvitað líka að skoða hvort ekki ætti að miða við markaðsverð eigna eins og bankarnir gera. Við fórum í gegnum það fyrir nokkrum árum að brunabótamatið er orðið að verulegu leyti úrelt, ekki síst eftir að því var breytt, og hálfónothæfur grundvöllur fyrir lánaviðmið og það hefur skert verulega lánsfjárhæðir úr Íbúðalánasjóði í gegnum árin. Það er auðvitað spurning hvort ætti ekki að gera það en þetta er góður áfangi að hækka viðmiðið í 100%.

Hæstv. ráðherra upplýsir að hann muni leggja hér fyrir frekari áætlun um hækkun á hámarksfjárhæðum. Ég vil spyrja ráðherrann hver þau áform eru.

Í 2. tölulið fyrirspurnarinnar er spurt um hverjar áætlanirnar eru um hækkun á lánshlutfalli og hámarksfjárhæðum. Ég vil spyrja ráðherrann um áform hans í því sambandi. Ég geri ráð fyrir að hann ætli strax að hækka lánin í 90%, það verði í því frumvarpi sem hann leggur fyrir, en þá er spurningin um áætlanirnar varðandi hámarksfjárhæðina, í hvaða skrefum það verður tekið að hækka þær. Síðan vantar auðvitað mat Seðlabankans inn í þetta en ég býst við að þær breytingar sem orðið hafa á lánamarkaðnum breyti þar verulega.

Ég lýsi vonbrigðum mínum með að hæstv. ráðherra vilji ekki auka sveigjanleikann að því er varðar veðmörkin. Ég er sannfærð um að ef hann gerði það væri það hvati til þess að fólk væri ekki í eins miklum mæli og núna að endurfjármagna lán sín hjá Íbúðalánasjóði og fara með þau yfir í bankana. Það eru hæg heimatökin fyrir hæstv. ráðherra að breyta þessum veðmörkum og hann gæti þá haldið sig við 100% af brunabótamati á 1. og 2. veðrétti og þannig hjálpað fólki til að losa um erfið og dýr lán upp á 1 eða 2 millj. í stað þess að þurfa að fara út í heildarendurfjármögnun.