131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Samkeppnishæfni Íbúðalánasjóðs.

79. mál
[13:44]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson spyr hvort ríkið sé með þessu að hasla sér frekari völl í samkeppni við banka á lánamarkaði. Svo er ekki. Hins vegar ber Íbúðalánasjóði, samkvæmt lögum um húsnæðismál, að sinna skyldum sínum um lánveitingar til fólks á húsnæðismarkaði óháð búsetu og efnahag. Það er að sjálfsögðu fyrst og fremst það markmið sem við stöndum vörð um auk þess að tryggja stöðu sjóðsins í breyttu umhverfi.

Hæstv. forseti. Hér hefur orðið nokkur umræða um endurfjármögnun lána bæði af hálfu hv. fyrirspyrjanda og hv. þm. Jóhanns Ársælssonar. Staðan er sú að Íbúðalánasjóður þarf í dag að bregðast við auknum þrýstingi á uppgreiðslur sem stafar af hærra vaxtastigi á liðnum árum en nú er. Sjóðurinn byggir nú á nýju áhættufjárstýringarkerfi sem á að tryggja að hann standi undir skuldbindingum sínum. Félagsmálaráðherra og Fjármálaeftirlitið bera lykilábyrgð á því að svo verði. Ég tel hins vegar, hæstv. forseti, varhugavert að gera breytingar á útlánareglum sjóðsins í flýti án þess að nauðsynleg greining liggi þar að baki. Ég vil ekkert útiloka um aldur og ævi í þeim efnum. Það er eðlilegt að tillögur um breytingar á útlánareglum sjóðsins komi frá stjórn Íbúðalánasjóðs og taki mið af faglegri greiningu áhættu hans á einstökum sviðum. Yfir því er stjórn og starfslið Íbúðalánasjóðs sem og starfslið ráðuneytis húsnæðismála vakandi á hverjum tíma.