131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Kjör og vinnuskilyrði blaðburðarfólks.

116. mál
[14:04]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Í nýrri skýrslu umboðsmanns barna er ítarlega fjallað um kjör og vinnuskilyrði blaðburðarbarna en málefni blaðburðarbarna hafa lengi verið til athugunar hjá embættinu og hefur umboðsmaður reynt frá árinu 1995 að beita sér fyrir bættum kjörum og vinnuskilyrðum blaðburðarbarna. Í skýrslunni kemur fram að embættinu hafi í gegnum árin borist margar ábendingar sem benda til þess að víða sé pottur brotinn í kjörum og aðbúnaði blaðburðarbarna.

Hjá embættinu hefur verið lögð áhersla á nauðsyn þess að gerður verði kjarasamningur fyrir blaðbera til að tryggja að þeir fái notið lögvarinna lágmarksréttinda til jafns við aðra launþega. Fram kemur í skýrslu umboðsmanns að félagsmálaráðherra hafi opinberlega lýst þeirri skoðun sinni að ófært væri að blaðburðarbörn væru ekki í stéttarfélagi. Í framhaldi af því ákvað umboðsmaður að senda félagsmálaráðherra bréf þar sem hann var hvattur til að taka upp málið við aðila vinnumarkaðarins.

Ljóst er að deilur hafa staðið um það milli aðila vinnumarkaðarins hvort gera eigi kjarasamning fyrir blaðburðarfólk. Í Morgunblaðinu í nóvember sl. kom fram opinberlega að Efling taldi að Samtök atvinnulífsins hafi ekki gengist við þeirri ábyrgð sinni að setjast að samningaborði og ganga frá formlegum kjarasamningum fyrir þá sem starfa við blaðburð. Félagið hafi í fimm ár reynt að ná slíkum samningum við Samtök atvinnulífsins en án árangurs. Einungis blaðberar Morgunblaðsins séu með kjarasamninga hjá VR.

Í kjarasamningum árið 2000 ákváðu fulltrúar Flóabandalagsins og Samtaka atvinnulífsins að tryggja þyrfti réttarstöðu blaðburðarfólks, að grundvallarréttindi þeirra sem launafólks væru tryggð eins og lágmarkslaun, veikindaréttur, vinnufatnaður ásamt sértækari atriðum svo sem þyngdarmörkum blaða o.s.frv. Einn fundur var haldinn í maí 2001 og á þeim fundi kom fram afstaða Samtaka atvinnulífsins að þeir sæju ekki ástæðu til að koma að kjarasamningagerð fyrir blaðburðarfólk. Þess vegna tel ég ástæðu til þess miðað við þá stöðu sem núna er uppi að beina fyrirspurn til hæstv. félagsmálaráðherra um kjör og vinnuskilyrði blaðburðarfólks.

1. Eru kjör og vinnuskilyrði blaðburðarfólks í samræmi við lög og reglur, samanber t.d. 1. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda?

2. Hefur ráðherra tekið þetta mál upp við aðila vinnumarkaðarins eins og hann lýsti yfir opinberlega í nóvember 2003 að hann hygðist gera? Ef svo er, hver var niðurstaðan?