131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Kjör og vinnuskilyrði blaðburðarfólks.

116. mál
[14:15]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa umræðu. Eins og fram kom í máli hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar er hér ekki síst um að ræða börn og unglinga. Það var ekki síst ástæða þess að ég sá tilefni til þess í fyrri ræðu minni að rekja það með nokkuð nákvæmum hætti á hvern hátt væri farið með deilumál af þessu tagi því það sér væntanlega hver í hendi sér að það er ekki á færi barna eða unglinga að annast slík mál hver fyrir sig. Enn frekar er það undirstrikun þess og ástæða þess að aðilar á vinnumarkaði taki sig saman í andlitinu í þessu máli og gangi svo frá og búi svo um hnútana að sómi sé að. Ég ítreka hvatningu mína þess efnis í þeirra garð.

Hv. fyrirspyrjandi Jóhanna Sigurðardóttir spyr um eftirlit. Eins og ég rakti í ræðu minni áðan er eftirlit með kjörum á höndum aðila vinnumarkaðarins. Þær upplýsingar sem hér er spurt um liggja ekki fyrir. Við höfum ekki aðstöðu til þess í félagsmálaráðuneytinu að kalla eftir þeim en hvað varðar úrræði Vinnueftirlitsins sem ég rakti áðan að hefur staðið í samskiptum við þá aðila á þessum markaði sem ekki hafa staðið sig sem skyldi, þá liggur það fyrir að Vinnueftirlitið getur beitt dagsektum. En samkvæmt þeim upplýsingum, hæstv. forseti, sem ég hef aflað mér er komið að því stigi í aðgerðum Vinnueftirlitsins og ég sé ekki ástæðu til að bíða með það frekar án þess þó að ég gefi nákvæmar fyrirskipanir um það úr þessum stól.