131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Sameining Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins.

103. mál
[14:21]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir ágæta ræðu og áhuga á þessum mikilvæga málstað og eins og hann minntist á ræddi hann þetta mál á síðasta þingi.

Orðið sameining er stórt og stundum erfitt þannig að það er vandmeðfarinn ferill þegar sameina á fyrirtæki en líka jafnvandmeðfarinn ferill þegar til stendur að flytja fyrirtæki til eins og þekkt er. Sjálfur stóð ég eitt sinn að því að flytja Lánasjóð landbúnaðarins á Selfoss. Það var vel unnið verk innan frá og var mikill friður um þann flutning. Ég minnist þess þegar Landmælingar ríkisins voru fluttar á Akranes. Sá flutningur hlaut mikla gagnrýni í samfélaginu, ómaklega að mínu viti því að oft hef ég komið í þá stofnun síðan og sé að hún blómstrar með góðu fólki þannig að sá flutningur hefur heppnast vel. Síðan er auðvitað það sem ég verð að segja hér að þingið lagðist í lið með mér sem landbúnaðarráðherra á síðasta þingi um stórkostlega sameiningu sem hv. þm. minntist á, Landbúnaðarháskóla Íslands þar sem Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri, Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Garðyrkjuskólinn á Reykjum í Ölfusi voru gerðir að einni stofnun með lögum og það sameiningarferli er í fullum gangi. Sú stofnun tekur til starfa hinn 1. janúar nk. Það hefur verið mikið verk í landbúnaðarráðuneytinu að fylgja þeirri löggjöf eftir og þeirri ákvörðun þannig að mikil vinna hefur farið í þá sameiningu og ég bind miklar vonir við að það verkefni muni heppnast mjög vel. Rektor var ráðinn að þeirri stofnun og er hann nú að undirbúa þetta með okkur í landbúnaðarráðuneytinu og tekur til starfa hinn 1. janúar nk.

Hvað Landgræðsluna og Skógræktina varðar hef ég aldrei neitað því að það geti komið til þess síðar að það þurfi að endurskoða það, eins og endurskoðun á öllu kerfi landbúnaðarins og stoðkerfi hans, og ýmislegt er auðvitað á döfinni í mínu ráðuneyti í þeim efnum. Það er mikilvægt að endurskoða löggjöf um Landgræðsluna og Skógrækt ríkisins.

Það liggur líka fyrir og í því er verið að vinna varðandi hin landshlutabundnu verkefni að þar þarf að setja ein lög og eina reglu sem snýr að landinu öllu og marka þeim skýran ramma til framtíðar. Það er vinna sem er í gangi, en ég hef ekki hafið neina þá vinnu sem skiptir máli hvað varðar það sem hv. þm. spyr um, að sameina formlega Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins. Þetta eru mjög farsælar stofnanir og komi til þess verð ég auðvitað að vinna það innan frá, innan þeirra stofnana og ég útiloka það ekki hér frekar en annað. Ég fór yfir það á síðasta þingi að fyrirrennarar mínir tveir höfðu lagt í það mikla vinnu og skoðað það formlega hvort það væri heppilegt og komust báðir að þeirri niðurstöðu að slá því á frest. Tímarnir breytast og þegar einu verkefni lýkur tekur annað við. Ég mun auðvitað fara yfir það sem kom fram í ræðu hv. þm. og hefur komið fram fyrr, skoða með hvaða hætti og hvort það sé rétt. Sannarlega er það svo að þessar stofnanir gegna miklu lykilhlutverki hvor á sínu sviði og eiga með sér mikla samvinnu en hitt er ljóst að bæði hluti af landgræðslustarfinu, framkvæmdastarfið hvað það varðar er mikið unnið af bændum landsins, og hin landshlutabundnu skógræktarverkefni gera það að verkum að við eigum orðið hátt í þúsund skógræktarbændur sem planta skóginum og hinni nýju auðlind sem er að takast mjög vel og breyta ásýnd sveitanna.

Ég mun vissulega fara yfir þessi mál, ræða þau í ráðuneyti mínu og fara yfir þau með forustumönnum þessara stofnana, Bændasamtökunum, og hafa þar allt undir til að mæta þeim breytingum sem mikilvægar eru framtíðarinnar vegna þannig að þetta kemur til greina en er ekki á neinn hátt enn farið í gang.