131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Stimpilgjald við endurfjármögnun fasteignaveðlána.

106. mál
[14:43]

Böðvar Jónsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með fyrirspyrjendum að því leyti að kostnaður vegna skuldbreytinga er mikill og það er mikilvægt að reyna að lækka hann eins og hægt er og jafnvel að fella hann niður, en allt hefur sinn tíma eins og hæstv. fjármálaráðherra kom inn á.

Eins og fram kom í fyrirspurn hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrr í dag hafa bankarnir sett það skilyrði fyrir nýjum húsnæðislánum að þau verði á 1. veðrétti og hafa einstaklingar því þurft að skilmálabreyta öllum lánum sínum og greiða af því stimpilgjöld. Eins og fram kom þar líka hefur Íbúðalánasjóður ekki veitt veðleyfi þannig að einstaklingar hafa þá eingöngu leyfi til að skilmálabreyta bankalánum sínum en ekki lánum Íbúðalánasjóðs. Til að reyna að halda þessum kostnaði niðri ætti Íbúðalánasjóður að íhuga hvort ekki væri rétt að heimila veðsetningar á undan lánum Íbúðalánasjóðs svo fremi að veðsetningar séu innan þeirra marka sem sjóðurinn setur.