131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Stimpilgjald við endurfjármögnun fasteignaveðlána.

106. mál
[14:46]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar og Samfylkingin er þeirrar skoðunar að það eigi einfaldlega að afnema stimpilgjald af lánum. Við teljum að um mjög ósanngjarna skattlagningu á heimili og líka á minni fyrirtæki sé að ræða sem gerir þeim sem taka lán erfitt um vik að skuldbreyta lánum sínum.

Það eru miklar og jákvæðar hræringar á lánamarkaði sem gera það að verkum að það er auðveldara fyrir menn en áður að taka ný lán á lægri vöxtum og draga þannig úr þeirri byrði sem hvílir á fjölskyldum og fyrirtækjum. Stimpilgjöldin draga úr þessum möguleika. Þau draga úr samkeppni á lánamarkaði vegna þess að þau gera neytendum erfitt um vik að færa sig á milli. Ég er þeirrar skoðunar að þarna sé um ákaflega ósanngjarna skattheimtu að ræða og tel að það eigi að leggja hana af. Mér fannst raunar gæta ákveðins samkomulagsvilja hjá hæstv. fjármálaráðherra í málinu. Mér fannst eins og hann væri að fikra sig yfir á þá braut að hugsanlegt væri að ráðast í afnám þeirra á næstunni. Mér fannst a.m.k. að hann væri reiðubúinn til að ræða það alvarlega en ég tel að skattastefnan sem birtist í frumvarpi hæstv. fjármálaráðherra sé almennt röng. Ég tel að það hefði miklu frekar átt að fara þá leið að afnema stimpilgjöld og gera ráð fyrir því í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, og reyndar líka að lækka matarskattinn um helming en það er önnur saga, frú forseti, sem ég ætla ekki að segja núna.