131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Þjónusta við yngri alzheimersjúklinga.

114. mál
[15:03]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Reykv. s. hefur beint til mín fyrirspurn um sérhæfða þjónustu við yngri alzheimersjúklinga.

Í fyrsta lagi er spurt hvaða sérhæfð þjónusta standi alzheimersjúklingum undir 67 ára aldri til boða í heilbrigðiskerfinu.

Í öðru lagi er spurt hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir því að þessi hópur fái aðgang að hjúkrunarheimilum.

Margir aðilar sinna málefnum heilabilaðra, þar með töldum alzheimersjúkum. Þar má nefna minnismóttökuna á Landspítala – háskólasjúkrahúsi, heilsugæslustöðvar, öldrunarlækna, félagsmálastofnanir og Félag aðstandenda alzheimersjúkra.

Alzheimersjúkdómur er hrörnunarsjúkdómur og eru flestir sem greinast með hann komnir á efri ár. Engu að síður greinist allnokkur hópur fólks með heilabilun af þessum toga á miðjum aldri, líkt og á raunar við um fleiri hrörnunarsjúkdóma. Sé horft til þjónustu við heilabilaða utan öldrunarstofnana þá stendur öllum sama þjónusta til boða óháð aldri. Heilsugæslulæknar eru gjarnan þeir sem fyrstir koma að málum þegar grunur vaknar um heilabilunarsjúkdóm á hvaða aldri sem sjúklingurinn er. Algengt er að sjúklingum sé vísað á minnismóttöku Landspítala – háskólasjúkrahúss þar sem fram fer greining á því hvort og þá hvers konar heilabilun er um að ræða. Minnismóttakan er starfrækt á öldrunarsviði sjúkrahússins en er þó ekki bundin við ákveðna aldurshópa. Starfið þar einkennist af þverfaglegu samstarfi öldrunarlækna, hjúkrunarfræðinga, félagsráðgjafa og sálfræðinga. Samhliða greiningu fer þar fram mat á því hvers konar aðstoð sjúklingurinn og aðstandendur hans þurfa á að halda. Þau úrræði sem um er að ræða eru heimaþjónusta sem félagsþjónusta sveitarfélaganna veitir, heimahjúkrun, dagvistun, hvíldarinnlagnir og langtímavistun á stofnun ef sjúkdómurinn er kominn á hátt stig.

Hv. þm. spyr hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir því að umræddur hópur fái aðgang að hjúkrunarheimilum.

Í lögum um málefni aldraðra eru aldraðir skilgreindir þeir sem eru 67 ára og eldri. Stofnanir aldraðra eins og um þær er fjallað í sömu lögum eru því strangt til tekið einungis ætlaðar þeim sem eru eldri en 67 ára. Eigi að síður hefur fólk sem þjáist af öldrunarsjúkdómum á borð við alzheimer en er yngra en 67 ára fengið vistun á öldrunarstofnunum. Vistun fólks undir 67 ára aldri inni á öldrunarstofnun er háð undanþágu heilbrigðisráðuneytisins og fjallar ráðuneytið um hverja einstaka beiðni þess efnis.

Úrræðum fyrir fólk með heilabilunarsjúkdóma hefur fjölgað umtalsvert á liðnum árum og jafnframt eru komin ný og betri lyf til að meðhöndla þessa sjúkdóma. Dagvistarúrræðum hefur fjölgað og komið hefur verið á fót sambýlum sem sérstaklega eru ætluð heilabiluðum. Félag aðstandenda alzheimersjúklinga hefur átt stóran þátt í því að bæta aðstöðu heilabilaðra, m.a. með því að efla fræðslu og upplýsingar til almennings og með samstarfi við heilbrigðisyfirvöld og heilbrigðisstofnanir.

Skiptar skoðanir eru um það hvort rétt sé að vista einstaklinga yngri en 67 ára á stofnunum fyrir aldraða. Rætt er um hvort koma þurfi á fót nýjum úrræðum sem sérstaklega eru ætluð þeim sem þurfa á langtímavistun að halda vegna þessa sjúkdóms og hafa ekki náð þessum aldri. Í því sambandi er að mörgu að hyggja. Eðli sjúkdómsins skiptir máli. Búseta hins sjúka og aðstandenda hans gerir það einnig og eðlilegt er að horfa til þess hvort um sé að ræða ungt fólk eða einstaklinga sem eru komnir vel yfir miðjan aldur. Eðli málsins samkvæmt eru flestir í hópi þessara sjúklinga komnir nálægt 67 ára aldursmörkum.

Ég hef ákveðið að setja á fót vinnuhóp til að skoða þessi mál gaumgæfilega og mun óska eftir því að hann skili mér áliti ásamt tillögum um úrbætur og framtíðarfyrirkomulag þessara mála.

Virðulegi forseti. Ég vona að svar mitt hafi veitt hv. þingmanni upplýsingar um stöðu þessara mála eins og þau eru nú.