131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Þjónusta við yngri alzheimersjúklinga.

114. mál
[15:10]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra svörin og þeim sem tóku þátt í umræðunni.

Vissulega er það rétt sem hæstv. ráðherra sagði að margir eru að sinna alzheimersjúklingum og þeim er sinnt vel þar sem þeir eru. En þjónustan er miðuð við aldraða. Ég er að spyrja hérna sérstaklega um þjónustuna við yngra fólkið. Það þarf að fá undanþágu. Þó það sé komið með undanþáguna þá fær það ekki inngöngu á hjúkrunarheimilin. Sóltún og Hrafnista taka ekki við yngri sjúklingum þó þeir séu með undanþáguna. Þeim er neitað um hjúkrunarvistina.

Það er vissulega skortur á því að hjúkrunarrúm séu sérstaklega fyrir alzheimersjúklinga. Á Vífilsstöðum bættust t.d. við 50 hjúkrunarrúm nú nýlega en ekkert þeirra var fyrir heilabilaða. 40 ný viðbótarrúm eru á Eir en ekkert þeirra er heldur fyrir heilabilaða. Í raun þyrftu 60–70 hjúkrunarrúm að vera fyrir þennan hóp.

Ég verð að segja að það er orðið mjög brýnt að ráða úr þessum vanda. Það er ekki nóg að stofna vinnuhóp þó ég fagni því vissulega. Hann þarf þá að hraða störfum því þetta mál þolir ekki bið. Það er ekki hægt að leggja þetta á aðstandendur eins og gert hefur verið. Það þarf að koma á sérstökum heimilum fyrir þennan hóp sem er yngri en 67 ára og veita honum sérstaka þjónustu sem hentar honum. Ég minni á að þetta fólk á engan málsvara. Þetta er ekki eins og með hjartasjúklinga eða aðra sjúklingahópa sem geta talað fyrir sig sjálfir. Þetta fólk getur það ekki.

Í dag eru alzheimerdeildirnar á Landspítalanum fullar. Þær geta ekki tekið við sjúklingum. Eina leiðin fyrir þessa sjúklinga til að komast inn á spítalann er ef eitthvað kemur fyrir, ef eitthvað alvarlegt hendir, t.d. að þeir detti og brjóti sig eða kveiki í eða eitthvað alvarlegt kemur fyrir. Það er því orðið mjög aðkallandi að leysa úr vanda þess hóps sem heilabilaðir og alzheimersjúklingar eru, sérstaklega þeirra sem yngri eru.