131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

159. mál
[10:33]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Í örfáum orðum vil ég einungis segja að mér líst prýðilega á það frumvarp sem hæstv. ráðherra flytur. Ég er sannfærður um að hv. efnahags- og viðskiptanefnd mun vinna þetta mál hratt og vel. Hér er verið að gera breytingu sem miðar að því að heimilt verði að samskrá móður- og dótturfélög á virðisaukaskattsskrá, vissulega að einhverjum skilyrðum uppfylltum, en tilgangurinn með þessu er jákvæður. Hann er sá að fyrirtæki sem af einhverjum rekstrarlegum ástæðum kjósa að skipta starfsemi sinni í tvö eða fleiri félög geti starfað sem ein skattaleg eining. Herra forseti. Við teljum að þetta sé hið ágætasta mál.

Frumvarp þetta er um breytingu á lögum um virðisaukaskatt. Nú vill svo til að síðar í dag verður gengið til atkvæða um annað frumvarp sem tengist virðisaukaskatti, frumvarp sem Samfylkingin leggur fram og gerir ráð fyrir að matarskatturinn verði lækkaður töluvert.

Mig langar í tilefni af því að hæstv. ráðherra reifar breytingu á lögum um virðisaukaskatt að inna hann eftir því hvort einhverrar niðurstöðu sé að vænta í þeim viðræðum sem hafa verið milli stjórnarflokkanna um breytingar á virðisaukaskattskerfinu. Ég spyr að gefnu tilefni. Fram kom hjá einum af talsmönnum stjórnarliða í efnahagsmálum, hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur, í umræðu fyrir tveimur dögum að í gangi væru viðræður sem gætu hugsanlega leitt til þess að virðisaukaskattur á matvælum, einkum þeim matvælum sem eru í lægra virðisaukaskattsþrepinu, yrði lækkaður. Hv. þm. Dagný Jónsdóttir upplýsti að slíkar viðræður væru í gangi og talaði um að svigrúm væri upp á 3 milljarða og viðræðurnar miðuðu að því að kanna hvað af þeirri upphæð ætti að renna til breytinga á barnabótum og hvað ætti að fara í virðisaukaskattinn. Mér þætti ákaflega vænt um ef hæstv. ráðherra vildi eyða örfáum orðum í að segja okkur af gangi þessara viðræðna, hvaða niðurstaðna er að vænta eða hvort einhverra niðurstaðna er að vænta í því máli.