131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

7. mál
[10:58]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég fellst fúslega á að það er ákveðin innri lógík sem er í því að ef á annað borð er verið að hækka fjármagnstekjuskatt þá sé um leið varið töluverðum hluta af svigrúminu sem hann skapar til þess að búa til skattfrelsi fyrir þá sem eru ákaflega litlir greiðendur, einstaklingar sem flestir greiða af tiltölulega smáum innstæðum á bókum.

Þetta hefur verið rætt töluvert í hópi Samfylkingarinnar. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur skoðað þetta, reyndar árum saman, og verið með þessar sömu vangaveltur. Ég tel hins vegar ekki algjörlega einboðið, ef menn fara þessa leið, að því svigrúmi verði varið með þessum hætti, ég er ekki alveg viss um að það sé endilega rétt. Ég sagði að ákveðin lógík væri í því og ég fellst fúslega á það. Á mínum pólitíska ferli hef ég orðið var við margvíslegan þrýsting en það hefur aldrei neinn komið og sagt: Þetta er verulega ranglátt og þarna er mikið ranglæti sem leiðir með einhverjum hætti til skorts eða neyðar.

Auðvitað er þetta má segja pólitískt smekksatriði. Ég ætla ekki að fella neina dóma yfir þessu en segi hins vegar að svona mál þurfa menn að skoða ákaflega vel. Á sínum tíma var sammæli um slík mörk í þessari skattlagningu eftir miklar deilur, m.a. til að koma í veg fyrir að hér skapaðist skattalegur þrýstingur á fyrirtæki til að hverfa burt og á menn til að koma fjármunum sínum burt. Nú upplýsir hv. þm. það að miðað við stöðuna í samkeppnislöndum ætti hækkun jafnvel upp í þetta háa mark ekki að leiða til mikils þrýstings. Þannig hef ég skilið það samkvæmt þeim upplýsingum sem hv. þm. lagði fram. Það þykir mér líka fróðlegt að hlusta á.