131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

7. mál
[11:07]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta eru röksemdir sem er mjög mikilvægt að ræða og við eigum að taka mjög alvarlega. Þess vegna fórum við í rannsókn í skattaumhverfinu í öðrum löndum á þessum atriðum.

Í fyrsta lagi með tilliti til þess hvort hætta væri á að fjármagnið flytti úr landi. Niðurstaða okkar er sú hættan er ekki jafnmikil og margir vilja vera láta eða telja vera með hækkun á fjármagnstekjuskattinum. Síðan er hitt hvar mörkin liggja. Þetta viljum við ræða, það er alveg rétt.

Vandinn er sá, og það lagði ég áherslu á í upphafi míns máls, að við þurfum að afla hinu opinbera tekna, til þess að reka velferðarþjónustuna og sjá fyrir því sem samfélagslegt er og við erum sammála um það. Spurningin er: Hvernig gerum við það? Og hvernig gerum við það á sem markvissastan og réttlátastan hátt? Þar bendum við á ranglætið sem felst í að skattleggja launavinnuna og lágtekju- og meðaltekjufólkið með hárri prósentu, en hlífa ríkasta fólkinu, auðmönnunum, sem hafa tekjur sínar af fjármagni. Hér er ekki bara um milljónir, heldur tugmilljónir jafnvel hundruð eða milljarða að ræða. Þannig að þetta réttlætiskrafa í bland.