131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

7. mál
[11:09]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Hér fer fram athyglisverð umræða um skattamál og er eiginlega framhald af umræðunni í gær. Þar var nokkuð rætt um hlutverk skattkerfis — ég kom inn á það í gær — hvort því sé ætlað að afla ríkissjóði tekna til að standa undir velferðarkerfinu eða að jafna kjör og eignir og stöðu manna.

Ég vil gjarnan koma inn á þetta. Það er ákveðinn eðlilegur launamunur í gangi. Þeir sem hafa farið í langt nám vilja að sjálfsögðu fá þá fjárfestingu greidda einhvern veginn og krefjast því hærri launa og fá hærri laun. Þeir sem eru duglegir, sá sem er tvöfalt duglegri en annar, það er hagur allra að borga honum meira, jafnvel tvöfalt. Þeir sem eru snjallir sömuleiðis, koma með snjallar lausnir á hlutum. Þeir sem hafa mikla reynslu eða sýna mikla tryggð við fyrirtækið og vinna lengi á sama stað, það er eðlilegt að borga þeim meira af því það kostar svo mikið að skipta um fólk. Svona má nefna fjölmörg dæmi sem réttlæta eðlilegan launamun.

Reyni menn að skattleggja þennan eðlilega launamun í burtu — t.d. má nefna eina ástæðu launamunar að þeir sem vinna uppi á Kárahnjúkavirkjun vilja að sjálfsögðu hafa hærri laun heldur en þeir sem vinna í bænum og geta farið í bíó á kvöldin og verið með ástvinum sínum — þá myndast enn meiri launamunur fyrir skatt. Og eftir skatt verður þessi eðlilegi launamunur eftir sem áður. Eina sem gerist þegar menn reyna að skattleggja þennan launamun burt er að hann virðist vaxa í þjóðfélaginu.

Svo er náttúrlega til líka óeðlilegur launamunur sem felst í því að ég ræð bróður minn inn í einhverja opinbera stofnun og borga honum há laun. Það er óeðlilegur launamunur. Ég hugsa að hann minnki heldur ekki eftir skatt.

Niðurstaðan er því sú að ef menn fara leið vinstri manna til að breyta hegðun manna með því að skatta burt launamun, þá myndast enn meiri munur fyrir skatt og munurinn verður því til staðar eftir skatt. Þessi tilraun eða barátta er dæmd til að tapast. Þetta á ekki að vera hlutverk skattkerfis að mínu mati.

Bótakerfið getur aðstoðað þá sem eru illa settir og gerir það. Þar eigum við að jafna mun, þ.e. bæta stöðu þeirra sem verst eru settir.

Þetta voru örfá orð um hlutverk skattkerfisins.

Það myndast alltaf mikil umræða þegar álagningarskráin er birt. Þá hefjast umræður um að óeðlilegt sé að sumir hafi óskaplegar tekjur, fjármagnstekjur, og borgi af þeim lágan 10% skatt, á meðan aðrir þurfa að borga 38% skatt af launatekjum. Menn hafa jafnvel talað um tímasprengju í því sambandi.

Þessi umræða er öll á villigötum. Það virðist allt vera gleymt sem var rætt þegar fjármagnstekjuskatturinn var tekinn upp. Þá vorum við með mismunandi skattlagningu og kerfi í sambandi við fjármagnstekjur. Vextir voru skattfrjálsir. Arður var ýmist einskattaður, tvískattaður eða ekkert skattaður. Leigu- eða húsaleigutekjur voru skattaðar á ýmsan máta o.s.frv. Söluhagnaður var skattaður eins og laun, enda seldi enginn stórar eignir þurfandi að borga allt að helming í skatt. Þetta var allt sett í eitt flatt kerfi, 10% skatt, það átti ekki að koma ríkinu við hvernig menn vörðu eignum sínum, hvort þeir settu inn á bankabók, í hlutabréf, eða leigðu út húsnæðið o.s.frv.

Auðvitað er mikið óréttlæti fólgið í því að skattleggja t.d. vexti með 10%, þegar verðbólgan eins og hún var um árið 8% og allir voru með neikvæða raunvexti af innstæðum. Ef við ætlum að vera réttlátir ættum við að sjálfsögðu að taka verðbætur frá og skattleggja bara raunvexti. Ég er alveg til viðræðu um að skoða þá leið með fullkomnu réttlæti að skattleggja fjármagnstekjur eins og laun. Þá mundum við að sjálfsögðu skattleggja bara raunvexti í vaxtatekjum og draga vaxtagjöld frá öðrum tekjum. Þá er ég hræddur um að margir yrðu skattlitlir á Íslandi.

Uppspretta vaxta á Íslandi er hjá lífeyrissjóðunum og þeir lána til almennings sem skuldar þeim. Ég hugsa að Íslendingar hafi miklu meiri vaxtagjöld en vaxtatekjur almennt séð og tekjur ríkissjóðs af þessu yrðu almennt séð stórlega neikvæðar. Þetta var rætt í fjármagnstekjuskattanefndinni á sínum tíma.

Talandi um arð og söluhagnað af hlutabréfum, við skulum skattleggja þau eins og tekjur, ekki málið. En þá verður líka að leyfa fólki að draga frá tap af fjárfestingum, öllum litlu aðilunum sem tapa á atvinnurekstri úti um landsbyggðina, fara í útgerð, tapa á því, fara í einhverjar prjónastofur, tapa á því, kaupa í deCODE á genginu 60 og tapa helling á því. Við skulum bara leyfa því fólki að draga tapið frá tekjum fyrir skatt. Ætli það yrði ekki svipur á sumum þegar einstakir aðilar yrðu skattfrjálsir yfir áratug vegna taps á atvinnurekstri? Allt í lagi, við skulum skoða þetta.

Varðandi húsaleigutekjur, við skulum taka líka allan kostnað við húsnæðið, viðhald, afskriftir, vexti af fjármagni og skattlagningu á húsnæði, gerum það. Flækjum þetta endilega eins og mögulegt er þannig að menn hætti að telja fram leigutekjur eins og þeir gerðu. Gerum það, allt í lagi. Ég er hræddur um að tekjur ríkissjóðs yrðu núll af þessum skatti í heild sinni.

Eftir að þetta var gert svona einfalt hafa tekjur ríkissjóðs af fjármagnstekjum blásið út sem aldrei fyrr, sérstaklega tekjur ríkissjóðs af söluhagnaði af fasteignum og hlutabréfum, hann hefur vaxið. Stórar sölur eins og sala á Samherja og Hagkaupum hefðu aldrei orðið, aldrei nokkurn tíma, ég fullyrði það, ef eigendurnir hefðu þurft að borga helming af hagnaði í ríkissjóð. Ég er því ekkert viss um að slíkar hugleiðingar séu sérstaklega skynsamlegar.

Þessar skatttekjur eru allar mjög viðkvæmar fyrir skattprósentunni og núna er einmitt mál í gangi, rosalega stórt skattrannsóknarmál, þar sem einn aðili hafði mjög miklar fjármagnstekjur en honum fannst 10% vera of há þannig að hann borgaði ekki, ekki einu sinni 10%. Það var of hátt fyrir þann aðila. Ég held reyndar að flestum finnist í lagi að borga 10%, ef menn hagnast um 100 milljónir þá sé í lagi að borga 10 milljónir í ríkissjóð í eitt skipti. En það er annað ef það fer upp í 18%. Þá hugsa ég að fleiri flýi úr landi og reyni að komast undan því að borga skattinn. Það er nefnilega fullt af möguleikum og alveg sérstaklega í þeim löndum sem hafa háa skattprósentu. Þar er svo mikið af undanþágum fyrir erlent fjármagn að það er til að æra óstöðugan að setja sig inn í það.

Ég vara því mjög mikið við þeirri hugmynd að hækka prósentuna upp í 18%. Ég er nærri viss um að tekjur ríkissjóðs mundu snarminnka. Annars verða menn náttúrlega að ganga leiðina til enda og vera virkilega réttlátir og leyfa frádrátt af verðbótum, leyfa frádrátt af rekstrargjöldum, leyfa frádrátt af tapi á hlutabréfum, leyfa kostnað við leiguhúsnæði, það væri rökrétt en ekki að fara svona leið.

Talandi um skattfrelsismörkin, 120 þús. kr. Almáttugur, hvað erum við að tala um, herra forseti? Við erum að tala um 12 þús. kr. á ári eins og það drepi einhvern sem er með 120 þús. kr. í tekjur af fjármagni. Hvað eru menn að tala um? Það er fáránlegt að flækja allt kerfið fyrir þúsund kall á mánuði hámark sem einhver mundi hagnast á þessu. Þá þyrfti að telja fram fjármagnstekjur, koma með reikning yfir það, upplýsa það o.s.frv. og það þyrfti að aflétta bankaleyndinni í bönkunum. Í staðinn fyrir að taka 10% af öllum fjármagnsgjöldunum sem þeir greiða sparfjáreigendum þyrftu bankarnir að telja fram hvern einasta mann. Allt fyrir þúsundkall á mánuði, hámark. Hvað eru menn að gera? Er ekki öfundin alveg að fara með menn í málinu? Ég held að aðalhugsunin á bak við þetta sé náttúrlega öfundin yfir því að einhverjir skuli hafa svona miklar tekjur. Þeir munu hafa þær tekjur eftir sem áður, bara annars staðar. Ég vil benda á að mest af þessu fjármagni sem menn sjá ofsjónum yfir hefur komið til Íslands erlendis frá, frá Rússlandi og Bretlandi. Það getur vel verið að menn vilji ekkert hafa þetta fjármagn í atvinnulífinu, kannski vilja menn bara hafa sama doðann og var hér áður, allt í kaldakoli og launin á Íslandi til skammar. Maður skammaðist sín fyrir þau þegar menn nefndu það í útlöndum á þeim tíma, þau voru svo lág.

Launin hafa hækkað sem hvergi annars staðar eftir að kerfið var sett upp svona, eftir þessa innspýtingu í atvinnulífið sem gerir það að verkum að menn eru hvattir til þess að skila hagnaði, menn eru hvattir til þess að sýna góða afkomu. (ÖJ: Eru launakjör ásættanleg á Íslandi hjá láglaunafólki?) Launakjör á Íslandi eru orðin mjög ásættanleg, já. Meðallaun samkvæmt kjararannsóknarnefnd á öðrum ársfjórðungi 2004 voru að meðaltali 261 þús. kr. hjá iðnaðarmönnum, verkamönnum, verslunarmönnum og stjórnendum. Það finnst mér vera nokkuð þokkalegt og ég er ánægður með það — miðað við það sem var þegar lægstu launin voru um 46 þús. kr., eitthvað svoleiðis, sem var til háborinnar skammar.

Launin hafa því hækkað mjög umtalsvert sem betur fer. Auðvitað vinnum við að því að hækka þau enn frekar og við ætlum að lækka skatta á launin líka til að minnka muninn á milli fyrirtækja og einstaklinga.

En ég vara sem sagt eindregið við svona flækingu á kerfinu, við svona skattahækkun, ég veit ekkert hvaðan 18% eru komin, sennilega er höfð hliðsjón af skatti á hagnað fyrirtækja, en af hverju ekki 38%, af hverju ganga menn ekki bara vegferðina til enda fyrst þeir eru að þessu á annað borð? Og af hverju gera þeir þetta ekki raunverulega réttlátt með því að taka inn öll þessi atriði sem ég nefndi til frádráttar? Geri þeir það munu margir Íslendingar fara að skulda, þá munu þeir fyrst fara að skulda almennilega þegar vaxtagjöld eru frádráttarbær.