131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

7. mál
[11:24]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. fellur í þá gryfju sem mér finnst vinstri menn alltaf falla í. Þeir reikna með því að menn séu fátækir eins og það sé eitthvert persónueinkenni. „Hann er bláeygur og fátækur“, og það sé ekki hægt að breyta því.

Ég vil breyta því. Ég vil að menn hætti að vera fátækir. Ég vil að menn fái og sækist eftir því að fá hærri tekjur. Því miður höfum við búið til kerfi með einmitt þessum millifærslum, með öllum þessum skattkerfum, sem gerir það að verkum að margt fólk getur ekki bætt stöðu sína, það getur ekki hætt að vera atvinnulaust því það tapar á því. Það getur ekki hætt að vera öryrkjar því það tapar á því, (Gripið fram í.) og það getur ekki menntað sig af því að það tapar á því. Þetta eru svokallaðar fátæktargildrur. Ég vil afnema þær eins og hægt er og hugmyndir ríkisstjórnarinnar ganga einmitt út á það.

Þessar hugmyndir ganga þvert á það.

Auðvitað viljum við að láglaunafólk hafi hærri tekjur. Ég vil hætta að vera með láglaunafólk. Ég vil bara að það verði millitekju- og hálaunafólk, það er markmið mitt. Sem betur fer hafa lægstu laun hækkað umfram allt annað í þjóðfélaginu, það hefur tekist á síðustu árum úr því að vera 46 þús. kr. 1995 yfir í að vera 100 þús. kr. núna.

Það hefur alltaf verið þannig að snjallir menn og duglegir fá hærri laun. Ef hv. þm. væri atvinnurekandi, hvort sem hann er opinber atvinnurekandi eða ekki, mundi hann að sjálfsögðu frekar vilja fá duglegt fólk og snjallt sem skilar vinnu sinni og vinnur tvöfalt á við aðra. Hann væri væntanlega tilbúinn til þess, sérstaklega ef þetta er einkafyrirtækið hans, að borga þeim eilítið meira.