131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

7. mál
[12:22]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hún hefur bara byrjað nokkuð skemmtilega, umræðan um skattamál á þessu þingi. Skattamálin voru til umræðu og það talsvert mikið fyrir síðustu alþingiskosningar. Þar höfðu flokkarnir ýmislegt fram að færa, ýmsar tilfærslur. Ég held að ég muni það rétt að flokkur Vinstri grænna hafi þá verið með í áherslu sinni tiltölulega litlar skattbreytingar en bent á ýmsar leiðir eins og niðurgreiðslu eða niðurfellingu á gjöldum á leikskólum sem vissulega nýtist barnafólki, kæmi þar með fjölmörgum Íslendingum til góða.

Hér er hins vegar verið að ræða mál sem snýr að fjármagnstekjuskatti. Það er auðvitað ein hlið á málinu, og ákaflega fróðlegt væri svo sem að taka umræðu um hana. Vissulega á sú umræða fullan rétt á sér til rökræðu um það með hvaða hætti sú skattlagning hefur átt sér stað hér á landi. Hvernig er hún þá í öðrum löndum til samanburðar? Það er auðvitað mjög fróðlegt hér í þessu þingskjali hv. flutningsmanna Vinstri grænna þar sem þau birta töflur yfir það hvernig farið er með skattgreiðslur í öðrum löndum, bæði tekjuskatt og fjármagnstekjuskatt.

Hér var líka rætt alveg nýlega mál frá Samfylkingunni um virðisaukaskatt af matvælum. Það var m.a. líka í umræðunni áðan milli tveggja hv. þm., úr stjórn og stjórnarandstöðu, sem skiptust á skoðunum um ágæti stefnumótunar ríkisstjórnar annars vegar og stjórnarandstöðunnar hins vegar.

Ég er nú þess sinnis, hæstv. forseti, og verð að segja alveg eins og er að mér hugnast ekki mjög vel sú skattastefna sem ríkisstjórnarflokkarnir eru núna með í skattamálum, þ.e. að því er varðar tekjuskattinn og hátekjuskattinn. Ég hef lýst þeim skoðunum nokkuð oft hér og hef talið að ef við tækjum til við skattalækkanir almennt fyndist mér kominn tími til þess að líta á stöðu þess fólks sem ber mestar byrðar í þessu þjóðfélagi og hefur versta afkomu. Það er auðvitað annars vegar lágtekjufólk almennt, hvar í stétt eða á hvaða aldri sem það er, og hins vegar barnmargar fjölskyldur.

Það er einfaldlega þannig, hæstv. forseti, a.m.k. að því er varðar okkur í Frjálslynda flokknum að við vorum akkúrat með þessar tvær áherslur fyrir síðustu alþingiskosningar. Annars vegar bentum við á að ef svigrúm væri orðið mikið til skattalækkana, sem menn greinir svo sem ekki á um að eitthvert talsvert svigrúm sé til þess, væri eðlilegt að horfa til þess að hækka persónuafsláttinn og þar af leiðandi lyfta skattleysismörkunum. Hins vegar væri ástæða til að koma til móts við vanda barnmargra fjölskyldna, m.a. væri hægt að gera það í gegnum skattkerfið. Við bentum á leið til þess og lögðum áherslu á það að þetta væru leiðir sem við værum mjög áhugasöm um að skoða. Við þurfum auðvitað fulltingi annarra flokka ef slíkar breytingar sem við lögðum til í kosningabaráttunni ættu að ná fram að ganga.

Nú er það hins vegar ekki á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar. Þau mál sem hér hafa verið reifuð og er núna verið að ræða, frumvarp þeirra félaga í Vinstri grænum um fjármagnstekjuskattinn og frumvarpið sem Samfylkingin var með um lækkun virðisaukaskatts á matvælum, eru ekki á stefnuskrá þessarar ríkisstjórnar. Ég hygg, þótt ég hafi því miður ekki getað verið við umræðurnar hér fyrst í morgun, að forustumenn ríkisstjórnarinnar í skattamálum hafi ekki tekið þessari umræðu fagnandi ef ég ræð rétt í þær umræður sem ég hef síðan heyrt hér í sölum Alþingis.

Ég held að það sé mjög áhugavert að skoða þessar leiðir, m.a. þá leið sem hér er verið að velta upp. Hinu verður þó ekkert á móti mælt að fjármagnstekjuskatturinn hefur fært talsvert miklar tekjur í ríkissjóð á undanförnum árum, vaxandi tekjur. Það er auðvitað líka til þess að líta að það er hægt að færa fjármagn tiltölulega auðveldlega milli landa. Svona hlutir þurfa skoðunar við.

Ég tel að sú hugmynd sem hér er sett fram um ákveðið lágmark, 120 þús. kr., sem beri 10% skatt og síðan annað skattþrep sem er 18% sem er það sama og atvinnufyrirtækin bera sé alveg fyllilega athyglisverð, ekki síst í ljósi þess að í löndum í kringum okkur sem við berum okkur iðulega saman við er skattkerfið uppbyggt með allt öðrum hætti, bæði að því er varðar skattþrep í tekjuskatti og eins er varðar skattþrep í fjármagni. Alls staðar fer skatturinn hækkandi eftir því sem fjármagnstekjurnar eru hærri. Það er bara staðreynd máls og alls ekki undarlegt. Það er mjög eðlilegt að við tökum slík mál til skoðunar hér og gaumgæfum vel í hvaða farveg við eigum að fara með þau mál er varða fjármagnstekjuskatt.

Hinu er svo ekkert heldur að leyna og það vita allir sem vita vilja að tekjuskiptingin í þjóðfélaginu hefur verið að breytast mjög á undanförnum árum. Það er orðinn þó nokkuð mikill fjöldi af eignamönnum svokölluðum sem hafa miklar tekjur af fjármagni sínu og þar af leiðandi er margt að skoða í því. Hins vegar er á það að benda sem ég gat um áðan að það er hægt að færa fjármagn úr landi og menn þurfa þess vegna að skoða mjög vandlega hvað gert er í þessum málum.

Ég vil vekja athygli á því í umræðunni um skattamálin að við í Frjálslynda flokknum fáum vonandi að ræða síðar í dag um mál sem er á dagskránni, um lágmarkslífeyri, sem við köllum, um tryggan lágmarkslífeyri. Það hefði áhrif á rauntekjur ellilífeyrisþega til hækkunar þannig að svokölluð jaðarskattaáhrif vegna skerðingar bóta hverfa undir ákveðinni upphæð, sem við leggjum til að sé 50 þús. kr.

Ég minni á að það eru fordæmi fyrir því í lögum og reglum hér á landi að því er varðar fjármagnstekjur, þar sem fjármagnstekjufrádráttur er látinn vega 50%. Það er þegar kemur að skerðingu á bótum í tryggingabótakerfinu. Þar segir að helmingur fjármagnstekna skerði grunnlífeyri. Ég bendi á þetta vegna þess að þar er fjármagnið tekið út fyrir sviga og í raun gengið út frá sömu hugsun og í frumvarpi Vinstri grænna þar sem viss hluti fjármagnstekna skerðir ekki tekjur. Í reglunum um ellilífeyrinn eru fjármagnstekjur mínusaðar um helming áður en þær skerða grunnlífeyrinn. Um þann þátt málsins munum við í Frjálslynda flokknum ræða í dag varðandi lágmarkslífeyrinn, um grunnlífeyrinn, tekjutrygginguna, sérstöku tekjutrygginguna og hvernig lífeyristekjur og aðrar tekjur skerða þær bætur. Ég bendi á þetta fordæmi, það er til að fjármagnstekjur eru ekki látnar skerða grunnlífeyrinn.

Ég fagna þeirri umræðu sem hér hefur farið fram um skattamál. Það var auðvitað eftir vonum að stjórnarandstaðan kæmi fram með þau mál sem þeir flokkar telja til bóta. Ég er almennt á þeirri skoðun að það sé gott að við skoðum þessi mál út frá þeim flötum sem hér hafa verið til umræðu. En eins og ævinlega þá eru skattamál flókin og þarf vitanlega að skoða þau frá mörgum sjónarhornum.

Ég er hlynntur því að þeir sem hafa hærri tekjur í þjóðfélaginu beri meiri byrðar en þeir sem lægri hafa tekjurnar. Við höfum bent á það í Frjálslynda flokknum að við séum almennt á móti að láta það hafa forgang að fella niður hátekjuskattinn en láta lágtekjufólkið sitja eftir.

Ég vonast til að sú umræða sem hér hefur farið fram um skattamál verði til þess að ríkisstjórnarflokkanir hugleiði aðeins vegferð sína í málunum og meti á annan hátt hina flötu tekjuskattsprósentulækkun. Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa greinilega allt aðrar áherslur til að hafa áhrif á stöðu og bæta hag þeirra sem lægri hafa laun. Ég held að það sé kominn tími til að fara slíkar leiðir í skattalækkunum.