131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Staða geðsjúkra og þjónusta við þá.

[13:45]

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Þótt góður hugur liggi að baki utandagskrárumræðu í tilefni alþjóðageðheilbrigðisdagsins dugar tveggja mínútna innlegg í málið fremur skammt. Mig langar að rifja upp að í þessum sal var fyrir tveimur árum rætt um heilbrigðismál í lengdri utandagskrárumræðu. Hún var mjög gagnleg. Hún dýpkaði og skerpti áherslur í málaflokknum. Það væri gagn að slíkri umræðu um málefni geðsjúkra á hinu háa Alþingi.

Ég er þeirrar skoðunar að stjórnvöld hafi um langt árabil rekið of einhæfa stefnu í málefnum geðsjúkra. Á síðustu árum hafa verið gerðar tilraunir til að rétta kúrsinn af, ekki síst fyrir frumkvæði og atbeina notenda geðheilbrigðisþjónustunnar og aðstandenda þeirra. Við höfum í allt of ríkum mæli lagt áherslu á stofnanaþjónustu fyrir geðsjúka. Við eigum satt að segja Norðurlandamet í fjölda sjúkrarýma fyrir geðsjúka og lengd sjúkrahúsdvalar þeirra.

Geðfatlaðir vilja eiga möguleika á að búa utan stofnana, sjálfstæðri búsetu með stuðningi samfélagsins ef þess er þörf. Þeir vilja vera eins virkir þátttakendur í lífinu og nokkur er kostur og hafa áhrif á mótun þjónustunnar. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin er sammála þessum áherslum og bendir á betri árangur meðferðar langveikra geðsjúkra utan stofnana. Hún hvetur til frekari uppbyggingar á slíkri þjónustu.

Í svari við fyrirspurn minni til hæstv. félagsmálaráðherra síðastliðið vor kom fram að um 90 geðfatlaðir voru á biðlista eftir félagslegum búsetuúrræðum. Það er mikið ánægjuefni að í fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir hinu háa Alþingi er gert ráð fyrir sérstöku átaki til að fjölga slíkum úrræðum. Sú ráðstöfun er eitt merki um breyttar áherslur í málefnum geðsjúkra.

Geðsjúkdómar eru langvinnir. Við leggjum áherslu á að fólk með langvinna sjúkdóma af líkamlegum toga sé stutt til sjálfshjálpar í eigin umhverfi sé þess nokkur kostur. Geðfatlaðir eiga þar að sitja við sama borð.