131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Staða geðsjúkra og þjónusta við þá.

[13:52]

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Aukin þekking, fræðsla og einlæg og hreinskiptin opinber umræða, frásagnir sjúklinga sjálfra og aðstandenda þeirra hafa orðið til að auka skilning okkar á geðsjúkdómum og sporna gegn rótgrónum fordómum. Skóli án aðgreiningar, leikskóli og grunnskóli þar sem fötluðum og ófötluðum er kennt hlið við hlið, leggur það líka af mörkum að vinna gegn fordómum og skapa skilning á mismunandi kjörum og aðstæðum bæði nemenda og fjölskyldna þeirra.

Framfarir í læknavísindum og ný og betri lyf hafa á örfáum áratugum valdið byltingu í allri hjúkrun og umönnun geðsjúkra og þau hafa orðið til að skapa sjúklingum allt aðra og meiri möguleika til að taka virkan þátt í samfélaginu og lifa og starfa utan stofnana. Það er kjarninn í stefnu stjórnvalda, að til boða standi fjölbreytt og sveigjanleg úrræði. Hópurinn sem á þjónustunni þarf að halda er svo fjölbreyttur og þarfir einstaklinganna eru óskaplega mismunandi. Stefnan, sem glöggt sér merki í fjárlögum síðustu ára og frumvarpi næsta árs, er að efla grunnþjónustuna í forvörnum og allri eftirfylgni við geðsjúklinga og gera geðheilbrigðisþjónustu að eðlilegum þætti heilsugæslunnar. Til þess er þverfaglegt samstarf innan heilsugæslunnar aukið með fjölgun sálfræðinga, félagsráðgjafa og iðjuþjálfa og haldið áfram að samstilla úrræði heilbrigðis- og félagsmálayfirvalda, útrýma gráu svæðunum.

Ekki er ýkjalangt síðan geðsjúkir voru einangraðir og innilokaðir og áttu sjaldnast afturkvæmt út í samfélagið. Innlagnir eiga að vera neyðarúrræði í bráðatilvikum. Lokaðar deildir ættu einungis að vera fyrir þá sem hefur sýnt sig að séu hættulegir sjálfum sér og öðrum. Innan skamms á að opna slíka deild, framlög til þess eru tryggð í fjárlagafrumvarpinu. Sá kostnaður auk annars kostnaðar sýnir óumdeilanlega, frú forseti, að það er ekki hægt að tala um niðurskurð í geðheilbrigðisþjónustu.