131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Staða geðsjúkra og þjónusta við þá.

[13:54]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Svo er að skilja á talsmönnum ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans að Íslendingar hafi slegið mörg heimsmet í því hve vel við stöndum okkur á þessu sviði. Ég held að það sé rangt. Ég veit ekki um heimsmetin en við stöndum okkur ekki vel. Það kemur ekki heim og saman við að mörg hundruð einstaklingar skuli vera á biðlista eftir að komast í viðtal við lækni og það taki iðulega 3–5 mánuði að fá viðtal.

Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur fyrir að taka þessa umræðu upp. Hún er brýn, svo brýn að við ættum að ræða málefni geðveikra á Alþingi á hverjum einasta degi þar til úrlausn fæst og ástandið verður bætt.

Það er erfitt að leggja almenna algilda mælistiku á sjúkdóma. Það er erfitt að gera upp á milli þeirra. Sjúkdómar eru allir erfiðir, eðli máls samkvæmt. En geðveikin sker sig frá öðrum sjúkdómum að því leyti að hún herjar ekki aðeins á þann sem haldinn er henni heldur á allt umhverfið. Á fjölskylduna, á vinnustað aðstandenda hins geðsjúka manns. Hún gegnsýrir allt umhverfið.

Menn stæra sig af því að hér sé verið að treysta þjónustuna, treysta aðstöðu geðsjúkra. Hvernig kemur það heim og saman við þá staðreynd, sem fram kom í máli málshefjanda, að á síðustu átta árum hefur deildum á Landspítalanum með 100–120 rúmum verið lokað. Arnarholti var lokað, þar eru 20 rúm. Við tölum um þetta sem 20 rúma deild en nær væri að tala um heimili 20 einstaklinga sem eru reknir út. Til hvers? Til þess að ríkisstjórnin eigi fyrir sínum gæluverkefnum, (Forseti hringir.) t.d. að byggja montbústað fyrir sendiherrann í Berlín fyrir 250 millj. kr. Þetta er pólitík þessarar ríkisstjórnar og ástæða til að mótmæla henni.