131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tryggur lágmarkslífeyrir.

8. mál
[14:31]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Ástæða þess að ég bið um andsvar við ræðu hv. þm. varðar ekki efnisatriði málsins, heldur orð hans um það og þá ósk hv. þm. að þetta mál fari lengra en það hefur gert áður. Þá vil ég einnig halda því til haga að alla jafna eru öll mál, sem er vísað til heilbrigðis- og trygginganefndar, send til umsagnar.

Vegna orða framsögumanns og 1. flutningsmanns þessarar tillögu til þingsályktunar er kannski rétt að taka fram að í fyrra var þessu máli útbýtt 31. mars, en komst aldrei á dagskrá þingsins, það náði aldrei 1. umr. hér í þingsal, þar af leiðandi var málinu aldrei vísað til heilbrigðis- og trygginganefndar og fór því aldrei út til umsagnar í það skiptið. Árið áður, eða á þinginu þar á undan, var mælt fyrir málinu 13. febrúar og greidd atkvæði 17. febrúar um að vísa því til nefndar, en ég minni háttvirta þingmenn á að þinginu lauk 10. mars það ár, þannig að ég efa að það hafi verið fundur í heilbrigðis- og trygginganefnd á þeim tíma.

Það sem ég vildi bara leiðrétta og gefa skýringar á er hvers vegna málið hafði ekki náð lengra a.m.k. á tveimur síðustu þingum. Ég geri mér vonir um fyrst málið er komið svona snemma núna að að lokinni 1. umr. verði því vísað til heilbrigðis- og trygginganefndar og svo sem venja er um mál í þeirri nefnd og eflaust fleirum, umsvifalaust sent til umsagnar viðkomandi aðila og þá hugsanlega aðila sem flutningsmaður og aðrir sem að málinu standa leggja sérstaka áherslu á.