131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tryggur lágmarkslífeyrir.

8. mál
[14:33]

Gunnar Örlygsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Jónínu Bjartmarz fyrir þarfar ábendingar. Það kom líka fram í andsvari hennar að ekki er um efnislega gagnrýni á málið að ræða sem er að mínu viti mikið gleðiefni og vil ég því leyfa mér að vonast til að málið fái mikla og góða framgöngu í meðförum þingsins. Ég vil þó ítreka mikilvægi þess að mál sem þetta komist til atkvæðagreiðslu í þinginu, þ.e. eftir 3. umr. Þetta er mál af þeirri gerð sem þarf að komast inn í þingið á þeim fleti þar sem allir 63 þingmenn okkar Íslendinga munu annaðhvort ýta á já- eða nei-hnappinn.

Af orðum hv. þm. Jónínu Bjartmarz að dæma, þar sem ekki kom efnisleg gagnrýni á málið, er ég nokkuð bjartsýnn á að svo verði.