131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tryggur lágmarkslífeyrir.

8. mál
[14:36]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa mig samþykkan meginhugsuninni í þessu þingmáli, en með því hreyfir Frjálslyndi flokkurinn við mjög mikilvægu velferðarmáli, kjörum aldraðra.

Með lagasetningu árið 1996 um lífeyrissjóði, almennri rammalöggjöf um lífeyrissjóðina, var tekin mjög afdrifarík og stefnumarkandi ákvörðun. Við ætlum að fara inn á þá braut að fjármagna efri árin ef svo má að orði komast, með sjóðsmyndun, með því að efla lífeyrissjóði. Með þessum lögum voru allir landsmenn, bæði launamenn og atvinnurekendur, skyldaðir til að greiða í lífeyrissjóði í þessu skyni, (Gripið fram í.) allir skyldaðir til að greiða í lífeyrissjóði. Síðan hafa lífeyrissjóðirnir verið að eflast og það er alveg ljóst að þegar fram líða stundir þá mun almannatryggingakerfið verða víkjandi. Hlutföllin hafa breyst mjög á undanförnum árum. Hlutur almannatrygginga við fjármögnun efri áranna hefur verið að dragast saman, en hlutur lífeyrissjóðanna að aukast. Við erum að stíga ýmis skref á öðrum sviðum sem ríma við þessa mynd, þessa ákvörðun. T.d. byggir samningurinn sem gerður var við öryrkja, og var reyndar brotinn á þeim eins og alþjóð þekkir, á þeirri hugsun að lífeyrissjóðirnir fjármagni efri árin. En hugsunin í þessum samningi er einmitt sú að einstaklingar sem fara snemma út af vinnumarkaði eða komast ekki inn á vinnumarkað sökum örorku fái hlutfallslega hærri bætur út úr almannatryggingakerfinu, en hinir sem hafa verið í starfi fá greitt úr lífeyrissjóðum sínum. Þetta er þróunin sem nú á sér stað.

Við erum bara ekki komin mjög langt á veg þó ástandið sé að breytast, því stór hluti þjóðarinnar býr við mjög slök lífeyriskjör. Lífeyrissjóðirnir voru tiltölulega seint stofnaðir og fjármunir rýrnuðu í mörgum þessum sjóðum og þeir því ekki mjög burðugir. Það er t.d. ekki saman að jafna lífeyriskjörum hjá hinu opinbera, hjá ríki og sveitarfélögum annars vegar og á almennum vinnumarkaði hins vegar, þótt þetta sé að breytast líka.

Eins og ég skil þetta frumvarp þá er hugmyndin sú að koma til móts við þá einstaklinga sem ekki njóta ríkra réttinda í lífeyrissjóði. Það er lagt til að þeir sem eru með undir 50 þús. kr. á mánuði úr lífeyrissjóði fái aukinn stuðning í gegnum almannatryggingakerfið. Ég tel þetta vera mjög góða hugsun.

Í rauninni má líta á þetta sem eins konar brú á milli kynslóða, á milli kerfa. Þegar fram líða stundir þá hygg ég að ekki verði þörf á þessu, en þetta er mjög mikilvæg brú á milli þeirra kerfa sem við búum við; annars vegar gamla kerfisins þar sem almannatryggingakerfið var ráðandi og þess kerfis sem er nú í smíðum og er að dafna, lífeyrissjóðskerfisins, en það er stór hópur lífeyrisþega sem ekki nýtur ávinningsins af eflingu lífeyrissjóðanna á undanförnum árum.

Ég vil því lýsa stuðningi við þá hugsun sem hér kemur fram. Ég tek undir með þingmönnum Frjálslynda flokksins að mjög er mikilvægt að þetta fái rækilega umræðu og skoðun í nefnd, verði ekki einvörðungu sent út til umsagnar. Það er alveg rétt sem fram kom að yfirleitt eru öll frumvörp send til umsagnar, en síðan ekki söguna meir. Þau fást ekki rædd í nefndum. Reyndar er ekki hægt að alhæfa um það, t.d. hefur hv. þm. Pétur H. Blöndal, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, reynt að stuðla að því í þeirri nefnd að mál sem koma frá stjórnarandstöðunni fái slíka umfjöllun. Þetta er því engin algild regla að frumvörpum sé úthýst, en allt of oft gerist það að séu frumvörp ekki ættuð úr stjórnarherbúðunum eða frá meiri hlutanum, þá fái þau ekki efnislega umfjöllun inni í þingnefndum.

Ég hvet til þess að þetta frumvarp verði hið fyrsta sent til umsagnar og fái síðan góða og vandaða efnislega umferð í þingnefnd og komi að sjálfsögðu síðan inn í þingsal þar sem við getum að nýju tekið afstöðu til þess.