131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tryggur lágmarkslífeyrir.

8. mál
[14:50]

Gunnar Örlygsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það kom ýmislegt fram í ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals. Hann talaði um að sumir hafi ekki borgað brúsann á sínum tíma, borgað í lífeyrissjóðina. Hann benti líka á að kjör eldri borgara hafi lagast í gegnum árin.

Í fyrsta lagi vil ég benda hv. þm. Pétri H. Blöndal á að árið 1990 var skatthlutfall af tekjum eldri borgara 5,5%, en í dag árið 2004 er skatthlutfallið komið í 11,1%. Fjölmargir eldri borgarar hafa margoft í greinum og ræðum sýnt fram á rýrnandi kaupmátt eldri borgara síðasta áratuginn.

Vinnandi maður greiðir brúsann, sagði hv. þm. líka í ræðu sinni. Það er rétt hjá honum að hinir yngri þurfi náttúrlega að standa straum af velferðarkerfinu í blóma lífs síns, fólk sem hefur kraft og getu til þess að vinna og er á besta aldri til þess. Það er eðlilegt. En það breytir því ekki að það er líka kostnaður, frú forseti, sem myndast við fátæktina. Er það aukin lyfjagjöf? Er það fjölgun öryrkja? Svo má lengi telja.

Eru til kannanir sem geta sagt okkur hversu mikill kostnaður bætist ofan á velferðarkerfið okkar við fátæktina eina? Hefur hv. þm. Pétur H. Blöndal gert sér í hugarlund hvort það séu stórar tölur. Mig grunar að þær séu allháar.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson kom réttilega inn á í sinni ágætu ræðu þegar hann talaði um brú á milli kerfa og er mjög vel orðað hjá hv. þm. Hv. þm. Pétur H. Blöndal veit að við erum að fara á milli lífeyriskerfa. Grunnstoðin, almannatryggingakerfið sem er við lýði í dag, mun heyra sögunni til eftir 15–30 ár og við tekur nýtt kerfi. Það breytir því ekki að samkvæmt opinberum stofnunum eins og til að mynda Ráðgjafarstofu heimilanna mælast 30%, þriðji hver eldri borgari í landinu, undir fátæktarmörkum.

Því vil ég spyrja hv. þm.: (Forseti hringir.) Hvað hyggst ríkisstjórnarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, gera í málefnum eldri borgara (Forseti hringir.) á næstu missirum?