131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tryggur lágmarkslífeyrir.

8. mál
[14:52]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við höfum tvær stoðir lífeyris á Íslandi, það eru lífeyrissjóðirnir sem greiða verðtryggðan lífeyri miðað við verðlag og hins vegar almannatryggingar sem greiða lífeyri sem hefur hækkað, eins og laun, miklu meira en verðlag.

Vandi eldri borgara er lífeyrir frá lífeyrissjóðunum. Sá sem tók lífeyri fyrir fimm eða sjö árum hefur sömu kaupgetu, en miðað við laun hefur sá lífeyrir lækkað um helming vegna þess hve launin hafa hækkað mikið í landinu. Það að eldri borgarar greiði hærri tekjuskatt eins og allir landsmenn er vegna þess hve launin og bætur frá almannatryggingum hafa hækkað mikið. Þeir borga ekki aukinn skatt af bótunum frá lífeyrissjóðunum. Ef menn ætla að láta lífeyrissjóðina greiða hærri bætur eða betri verðtryggingu mætir það útlánunum hjá þeim og það geta þeir ekki. Þeir ná ekki þeirri ávöxtun. Ég efast um að íslenskir lífeyrissjóðir hafi náð ávöxtun umfram laun síðustu fimm eða sex árin, en þeir hafa náð mjög góðri ávöxtun umfram verðlag á stundum.

Þetta er því miklu flóknara kerfi. Það er mjög varasamt að grípa inn í það, en að sjálfsögðu munum við skoða þetta í hv. heilbrigðis- og trygginganefnd þar sem ég sit og láta reikna út dæmi og sjá hvernig þetta kemur út. En við megum ekki segja að þeir sem eru aldraðir séu fátækir. Sá sem er með 140 þús. kr. í laun er líka fátækur og er með börn og að koma sér upp húsnæði. Hann þarf að borga þetta kerfi. Fátækt hans er ekki síður dýr en fátækt þess sem þiggur bætur og ég hef einmitt heyrt mjög marga kvarta undan mikilli skattlagningu.