131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tryggur lágmarkslífeyrir.

8. mál
[14:58]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get alveg tekið undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal að það sé vandi að hanna velferðarkerfi. Ég tel tillöguna sem við mælum fyrir og þær umræður sem hafa spunnist í kringum hana mjög áhugaverðar. Tillagan er góð til þess að velta upp því samhengi sem við búum við í dag varðandi stoðir í lífeyriskerfinu.

Mér finnst ábyrgðarlaust hjá hv. þm. að halda því fram að menn hafi sérstaklega verið að svindla á lífeyrissjóðskerfinu á sínum tíma og komið sér hjá því að greiða í lífeyrissjóði. Atvinnurekendur höfðu t.d. dálitla sérstöðu að þessu leyti ef ég man rétt. Þeir þurftu að greiða í lífeyrissjóð fyrir fram áður en skattlagt var. Það var gert eftir á. Það eru því ýmsar ástæður fyrir því að menn eru misjafnlega settir í lífeyriskerfinu í dag. Þeir eru verst settir sem lægst höfðu launin, ég held að það fari ekkert á milli mála, og okkur greinir ábyggilega ekkert á um það, mig og hv. þm. Pétur H. Blöndal.

Þegar hv. þm. spyr hvað við ætlum að lesta mann mikið sem er með 140 þús. kr. held ég að hann ætti að spyrja þá sem eru með honum í flokki hvað þeir ætli að gera í sambandi við skattkerfið, niðurfellingu hátekjuskatts og lækkun á tekjuskattsprósentunni. Það er ekki verið að koma til móts við láglaunafólk með þessari stefnu ríkisstjórnarinnar.