131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tryggur lágmarkslífeyrir.

8. mál
[15:02]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að við bætum okkur ekki mikið á því að þvarga um þetta, ég og hv. þingmaður. Við erum ekki á sömu skoðun að því er varðar breytingar á skattkerfinu svo að það sé nefnt hér. Það er alveg ljóst að sú flata prósentulækkun sem á að taka upp í sambandi við tekjuskattslækkunina mun nýtast láglaunafólkinu miklu síður en hálaunafólkinu. Það liggur bara algjörlega fyrir. Þar til viðbótar er svo verið að fella niður hátekjuskattinn þannig að ef einhverjir eru að lesta meira á þá sem hafa lægri launin er það núverandi ríkisstjórn.

Hæstv. fjármálaráðherra segir líka í fjárlagafrumvarpinu að skattþegum hér á landi hafi fjölgað á undanförnum árum. Eðlilega. Skattleysismörkin hafa ekki fylgt laununum eftir. Í staðinn fyrir að vera 71 þús. ættu þau núna að vera að nálgast 100 þús., þ.e. ef þau hefðu fylgt raungildi sínu frá árinu 1988. Það liggur einfaldlega fyrir að við höfum aukið skattbyrði á þá sem lægri hafa launin. Sama stefnan er enn í gangi þannig að ég held að það sé margt sem ríkisstjórnarflokkarnir gætu gert til að laga stöðu þeirra sem lægri hafa launin. Þeir eiga til þess afl í þingi ef þeir vilja fara aðra leið en að vera alltaf að stefna á það að lækka launin hjá þeim sem lægstar hafa tekjurnar.