131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tryggur lágmarkslífeyrir.

8. mál
[15:27]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er eitt atriði sem ég ætlaði að gera athugasemd við. Það er að nota lágmarkslaun sem viðmið.

Ég minnist þess að þegar ég byrjaði að vinna að loknu námi var endalaust talað um það í kjarasamningum, aðrir þingmenn þekkja það örugglega líka, hver lægstu launin væru. Það þurfti að gera eitthvað fyrir lægst launaða fólkið. Alltaf var þessi sami söngur. Svo var eitthvað gert fyrir lægst launaða fólkið. Hvað gerðist strax í kjölfarið? Allir aðrir hækkuðu um sömu prósentu, uppmælingafólkið og allir. Aldrei tókst að laga kjör þeirra sem höfðu lægstu launin. Það tókst aldrei miðað við hina.

Svo gerist það að aðilar vinnumarkaðarins tóku sig saman um að hækka lægstu launin og láta það ekki hafa áhrif neins staðar, hvorki á uppmælingu, á aðra taxta eða á lífeyri. Þetta var ákveðið samkomulag, frú forseti. Þess vegna skil ég ekki af hverju menn leyfa sér að miða lífeyrinn við lægstu laun, sem voru tvöfölduð. Það voru örfáir á þessum launum. Fólk sem vann á kössum í Hagkaup, mest konur. Gert var samkomulag um að hækka þessi laun umfram allt annað. Þess vegna mega menn ekki miða við það þegar þeir bera saman lífeyri, laun og annað slíkt. Það væri mjög óheiðarlegt.

Menn geta miðað við meðallaun eða eitthvað slíkt en að miða við lægstu launin, sem voru með samstilltu átaki aðila vinnumarkaðarins hækkuð umfram allt annað, mega menn ekki gera.