131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Strandsiglingar.

161. mál
[15:47]

Guðmundur Hallvarðsson (S):

Virðulegi forseti. Málið sem hér er til umræðu, þingsályktunartillaga um strandsiglingar, er gott svo langt sem það nær. Ég hjó eftir því að hv. 1. flutningsmaður Jón Bjarnason sagði að hér væri stórmál á ferðinni og það er rétt. En hann taldi að samfélagslegt átak þyrfti að gera í samgöngumálum. Ég get tekið undir það með honum en hvernig á að standa að því máli þegar það liggur ljóst fyrir, eins og hv. þm. vitnaði oft til, í skýrslu nefndar um flutningskostnað að það er 70% dýrara að flytja gám með sjávarafurðum frá Vestfjörðum landleiðina en sjóleiðina? Hvernig má það vera að virðulegir atvinnurekendur í hinum dreifðu byggðum noti ekki sjóflutninga meira en raun ber vitni? Mun það frekar gerast með lagaboðum eða því að stofnað verði til einhvers konar skipaútgerðar ríkisins? Mun það gerast? Eða mun markaðurinn fylgja eigin lögmálum eins og hann hefur gert?

Enn eru stundaðar strandsiglingar. Eitt skipafélag siglir á Vestfirði og á skip sem heitir Jaxlinn. Vestfirðingar segja mér að þegar grannt sé skoðað, að teknu tilliti til alls kostnaðar við lestun og losun skips, sé flutningur á 40 feta gámi frá Vestfjörðum til Reykjavíkur sjóleiðina 30% ódýrari með skipi en að fara landleiðina, að teknu tilliti til alls kostnaðar.

Við höfum miklar upplýsingar um óhagræðið af landflutningunum. Ég vil með leyfi forseta vitna í grein sem birtist í Morgunblaðinu 11. október:

„Vöruflutningabifreiðar losa allt að sjö sinnum meiri koltvísýring út í andrúmsloftið en skip í strandflutningum, að því er fram kemur í verkefni Tinnu Finnbogadóttur, viðskiptafræðinema við Kaupmannahafnarháskóla, þar sem borin eru saman áhrif landflutninga og strandflutninga, sem kynnt var á málþingi Landverndar og Umhverfisstofnunar Háskóla Íslands á dögunum. ... Fram kemur að landflutningar jukust um 46% milli áranna 1990 og 2000 en vöruflutningar með skipum drógust saman um 10%. Ástæðan er einkum sögð auknar kröfur um ferskleika varnings, bætt vegakerfi, stærri og hagkvæmari flutningabílar og ójafnar greiðslur úr Flutningsjöfnunarsjóði.“ — Ég hélt að Flutningsjöfnunarsjóður starfaði helst varðandi flutning á olíu. — „Þrátt fyrir þetta séu landflutningar mun dýrari kostur en strandflutningar og er verðmunurinn allt að 340%.“

Þetta segir Tinna Finnbogadóttir varðandi rannsóknarniðurstöðu sína. En ég hlýt að velta því upp, í ljósi alls sem hér hefur verið vitnað til: Hvers vegna leita þá aðilar í atvinnurekstri á landsbyggðinni ekki í þennan farveg með vöruflutninga? Hvers vegna leita þeir ekki eftir sjóflutningum? Hvers vegna eru landflutningar svona miklir?

Í þessari margumræddu skýrslu, sem hv. þm. Jón Bjarnason vitnaði til og vitnað er til í þingsályktunartillögunni, er að mörgu leyti skýrt af hverju svo er, með leyfi forseta:

„Þegar strandferðaskipin voru flest fluttu þau neyslu- og fjárfestingavöru í samkeppni við vöruflutningabifreiðar. Á þeim tíma komu millilandaskip við á mörgum höfnum og lestuðu fyrst og fremst fiskafurðir til útflutnings.“

Í skýrslunni segir einnig m.a., með leyfi forseta:

„Af viðræðum við flutningsaðila og aðra aðila má ráða að fyrir þessari breytingu séu nokkrar meginástæður:

Stórauknar kröfur eru um hraða og sveigjanleika í flutningum. Neytendur krefjast sífellt meiri ferskleika vörunnar.“

Það er eðlilegt að neytendur úti á landi vilji ekki að matvara sé um borð í skipi í upp undir viku áður en henni er skilað á land og þeir séu að kaupa vörur á síðasta söludegi.

Næstu ástæður sem tíndar eru til eru eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Byggðaþróun og fækkun íbúa á einstökum svæðum á landsbyggðinni gerir það að verkum að flutningsmagn fer minnkandi. Ef sjóflutningar eiga að vera hagkvæmir þarf ákveðið magn flutninga að vera til staðar vegna hins háa fasta kostnaðar við flutningana.

Birgðahald vöru á landsbyggðinni hefur stórminnkað. Til þess að draga úr kostnaði við birgðahald hafa seljendur eins lítið af birgðum og mögulegt er í sinni vörslu og þurfa því hraða í flutningum til að endurnýja birgðir sem gengið hefur á.“

Svo að ég vitni áfram í skýrslu um flutningskostnað segir í framhaldi af þessu, með leyfi forseta:

„Hagkerfið einkennist í ríkari mæli af stöðugu flæði vöru fremur en óreglulegu flæði og birgðahaldi. Samkvæmt upplýsingum eins flutningsaðila eru flutningar til landsbyggðarinnar að stærstum hluta matvara, önnur neysluvara og hráefni til framleiðslufyrirtækja. Flutningar frá landsbyggðinni eru að stærstum hluta fiskur, fiskafurðir og önnur framleiðsluvara.

Samræming innanlandsflutninga í eitt flutningakerfi hefur skapað betri nýtingu flutningatækja í báðar áttir. Tómir frystigámar eru nú lestaðir með neysluvöru út á land og koma til baka lestaðir fiski. Áður fór fullur bíll með neysluvöru út á land og tómur til baka og á sama tíma fór tómur gámur með skipi út á land og fullur til baka með næsta skipi. Þessi aukna áhersla á landflutninga hefur leitt til þess að net landflutninga er orðið þéttara en áður. Árið 1993 gaf Landvari, samtök landflutningamanna, út verðskrá með upplýsingum um flutningsleiðir félaga innan sinna vébanda. Á þessum lista var að finna 67 áfangastaði. Nú eru Flytjandi og Landflutningar að flytja vörur á um það bil 90 áfangastaði. Ferðum á hvern áfangastað hefur líka fjölgað og þjónustan hefur verið bætt. Algengt er að ferðir á helstu staði séu farnar um það bil fimm sinnum í viku, þ.e. alla virka daga, og fleiri ferðir á dag á stærri staðina.“

Hér er kannski málið í hnotskurn, skýringarnar á því hvers vegna þetta hefur gerst, að sjóflutningarnir eru komnir á land. Auðvitað er það virðingarvert og nauðsynlegt, ég tek undir það, ef koma má á frekari flutningum á sjó. Það væri af hinu góða en skýringin liggur hér.