131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Strandsiglingar.

161. mál
[16:06]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka formanni samgöngunefndar fyrir að taka þátt í umræðunni. Ég tók afstöðu hans þannig í ræðu hans fyrr að hann væri opinn fyrir því að þetta yrði skoðað þó að hann gæfi sér svo sem ekkert í því, sem er í sjálfu sér prýðilegt hugarfar og þá fara menn yfir málin.

Varðandi það sem hv. þm. nefnir þá ætla ég ekki að útiloka að í einhverjum tilvikum hafi mönnum verið mislagðar hendur í því. Annars staðar hafa menn þó beinlínis verið að reyna að bregðast við þessu, tryggja þetta með því t.d. að sameina hafnir í hafnasamlög. Það var augljóst mál að menn stóðu frammi fyrir því að tekjum var að verða mjög misdreift milli hafna á ákveðnum svæðum, t.d. við Eyjafjörð, og þá fóru menn þá leið að menn reyndu að stofna hafnasamlög yfir stærri svæði þannig að það skipti þá ekki öllu máli frá hvaða höfn siglingarnar fóru fram. Tekjurnar jöfnuðust út og þar voru þá vöruhafnir og fiskihafnir innan sama hafnasamlags.

Ég held að annar vandi í þessu sé sá sem ég nefndi, að það er ekki víst að það sé alveg rétt gefið í þessu. Landflutningarnir eru náttúrlega í miklu fákeppnisumhverfi og það er alveg ljóst að þungaflutningarnir á vegunum eru ekki skattlagðir í samræmi við það slit sem þeir valda. Við vitum af hverju. Menn hafa að sjálfsögðu hikað við að hækka þungaskatt eða kílómetragjald þannig að það endurspeglaði hið raunverulega álag á vegunum vegna þess að þá mundi það stórhækka flutningsgjöld úti um landið og það er hinn endinn á málinu, sem er mjög neikvætt.

Ástæðan fyrir því að svona óhönduglega hefur tekist er held ég líka að við misstum af tækifærinu til að endurskipuleggja strandsiglingarnar á meðan þar voru umtalsverðir flutningar og áður en þetta fór að síga allt saman upp á landið. Það eru ekki nema 15 ár síðan þrjú skipafélög sigldu á ströndina, Skipaútgerð ríkisins, Eimskipafélag Íslands og Samskip. Ég reyndi sem samgönguráðherra á sínum tíma mikið til að koma þessum aðilum saman vegna þess að ekkert eitt af þessum félögum rak þetta með hagnaði. En þá hefði eitt félag sjálfsagt getað rekið sig með bærilegri afkomu án stuðnings ríkisins. Það kann að kunna stuðning ríkisins í byrjun ef við ætlum að endurreisa strandsiglingakerfið en það gæti vel verið að það yrði sjálfbært innan fárra ára.