131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Strandsiglingar.

161. mál
[16:08]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það alveg ljóst í mínum huga sem formanns samgöngunefndar að við munum auðvitað skoða málið með opnu hugarfari. Það er hins vegar spurning hvernig á að fara með það. Það er alveg rétt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á að menn hafa verið að hiksta við að setja hið rétta verð á ekinn kílómetra versus þyngd vegna þess, eins og hv. þm. kom inn á, að það mun auðvitað leiða til hærra vöruverðs úti á landi. Og ekki viljum við stuðla að því. Það þýddi bara enn meira óhagræði og jafnvel tilflutninga á fólki.

Ég nefndi áðan þennan flutningsmáta og hvort hafnirnar ynnu ekki saman. Það var mjög athyglisvert þegar hafnasamlögin voru stofnuð og þá bjóst ég við því að það mundi gerast sem hv. þm. kom inn á áðan varðandi hafnasamlög, að það yrðu þá bara einhverjar ákveðnar tilteknar hafnir sem önnuðust útflutning og alla aðdrætti en reyndin hefur orðið sú að það eru allar hafnir enn við lýði og þær krefjast fjármagns áfram út úr ríkisstyrkjum eins og ekkert hafi gerst.

Það þarf líka að hugsa hvort það geti verið, eins og ég nefndi áðan þegar ég nefndi t.d. Skagaströnd og Sauðárkrók, að menn segi sem svo: Það er búið að setja 40 feta gám upp á bíl og það kostar að keyra hann til Sauðárkróks eða öfugt frá Sauðárkróki til Skagastrandar. Það er ekki svo mikill munur á kostnaði að keyra hann til Reykjavíkur heldur en að keyra hann á Sauðárkrók eða Skagaströnd. Þetta gæti hugsanlega verið skoðað og er þá hægt að styrkja þessa flutninga á milli svæða til þess að búa til alvöruútflutningshafnir? Það er mál sem þarf að skoða.