131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Strandsiglingar.

161. mál
[16:24]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að breyta hugarfari fólks er góðra gjalda vert. Hvernig er það hægt í ljósi þeirra staðreynda sem við erum með skrifaðar niður, upplýsinga um þennan verðmismun flutninga á landi versus á sjó? Við vitum það og við komum inn á það áðan — ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ræddum þau vandamál sem fylgja því að hækka þungaskattinn. Hv. þm. talaði um að það væri eðlilegt að hækka þungaskattinn. Við megum þá ekki gleyma því að meginhluti matvörunnar er fluttur landleiðina vegna hraða og þeirrar kröfu sem fólkið úti á landi gerir auðvitað um að fá ekki matvöru á síðasta söludegi. Það er ósköp eðlileg krafa þannig að ef það er hugur hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur að það sé eðlilegt að hækka þungaskattinn á þessum bílum og beina þeim spjótum í þá átt þannig að menn fari frekar að flytja sjóleiðina er þetta óhagræði gagnvart einstaklingunum. Þá er þingmaðurinn um leið að leggja til að hinni dreifðu byggð verði mismunað með íþyngjandi sköttum sem koma fram í verði matvörunnar.