131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Strandsiglingar.

161. mál
[16:28]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er mjög gagnleg og góð umræða sem hér fer fram en tildrög þessa þingmáls, tildrögin að því að það er lagt fram, eru eins og kunnugt er að í ágústbyrjun var skýrt frá því að frá og með 1. desember nk. muni Eimskipafélag Íslands hætta strandsiglingum. Þá er fyrirséð að strandsiglingar muni leggjast af við Ísland. Það er ekki vegna þess að Eimskipafélag Íslands sé á vonarvöl. Á sama tíma var upplýst að hagnaður fyrir afskriftir á árinu 2004 væri áætlaður 2.300 millj. og gert er ráð fyrir að afkoma ársins 2005 verði 3.000 millj. og um 3.500 millj. árið 2006. Þetta eru áætlanir sem kynntar voru í sumar.

Þegar Skipaútgerð ríkisins var einkavædd árið 1992 trúðu margir því að Eimskip og Samskip mundu stunda grimma samkeppni sín í milli og að þetta mundi færa landsmönnum góða þjónustu á hagkvæmum kjörum. Þeim sem óskuðu þessa, sem við væntanlega gerðum öll, varð hins vegar ekki að ósk sinni. Nú stöndum við frammi fyrir því að strandsiglingarnar leggist af. Skipafélögin telja sig hafa meiri arð af annarri starfsemi en sjóflutningum við Íslands strendur og þar er komin skýringin á því að þau taka ákvörðun um að leggja strandsiglingarnar niður.

Við þessu er lítið hægt að segja annað en að ræða hvernig brugðist skuli við. Það gerum við tillögu um í þessari þingsályktunartillögu en þar leggjum við til að samgönguráðherra verði falið að undirbúa það að strandsiglingar verði eðlilegur hluti af vöruflutninga- og samgöngukerfi landsins og við erum með tillögu um að strandsiglingarnar verði boðnar út.

Ég kannaði þessi mál nokkuð í sumar og kynnti mér ýmis gögn sem reidd hafa verið fram í tengslum við þessa umræðu. Þar á meðal rakst ég á umsögn frá Félagi ísl. skipstjórnarmanna sem var send samgöngunefnd þegar samgönguáætlun fyrir árin 2003–2006 var til umræðu á Alþingi. Í þeirri umsögn er lögð áhersla á að samgöngumál séu skipulögð sem samstæð heild í stað þeirrar tilhögunar sem áður var að líta á hvern hinna þriggja þátta samgangna sem afmarkaðar stærðir skipulagslega og hagrænt og þá er vísað að sjálfsögðu í land-, loft- og sjóflutninga. Með þessari umsögn eru mjög fróðleg samanburðardæmi sem Félag ísl. skipstjórnarmanna setti fram. Ég ætla að lesa nokkrar línur upp úr umsögninni, með leyfi forseta, en félagið leggur mikla áherslu á að í samgönguáætlun þurfi að meta hagrænt gildi mismunandi samgöngumáta.

„Með því að leggja niður sementsflutninga með Skeiðfaxa milli Akraness og Reykjavíkur voru sömu flutningar færðir á vegakerfi landsins. Til að flytja sama magn á þeirri tímeiningu sem skipið flutti þarf lest 10 sementsflutningabíla og er orkunotkun þeirra varlega áætluð um 800% meiri en fer til að knýja skipið sömu leið, með tilheyrandi aukningu í útblæstri og mengun. Bílalestin leggur slitálag á 49 km af vegakerfi landsins, en skipið notar við sömu störf tvo viðlegukanta, vita og önnur leiðarmerki sjófarenda, auk eigin tæknibúnaðar.“

Síðar segir í umsögninni og enn er Félag ísl. skipstjórnarmanna með samanburðardæmi og hef ég lesturinn, með leyfi forseta:

„Mánafoss“ — minnsta skipið í strandflutningum fyrir utan olíuskip og báta — „flytur um 3.300 tonn af vörum. Flytji Mánafoss það magn af vörum í órofinni siglingu milli Reykjavíkur og Akureyrar tekur það um 27 klst. miðað við meðalaðstæður. Með því að flytja sama magn á vegakerfinu þessa leið, á sama tíma, þurfa 28 fulllestaðir vöruflutningabílar með tengivagni að fara 3 ferðir hver, á milli Reykjavíkur og Akureyrar.“

Síðan er nánari útlistun á þeim samanburði.

Í þessari umræðu hafa komið fram margar umhugsunarverðar ábendingar, t.d. frá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni um til að mynda verðlag, að það séu ýmsir aðrir þættir en verðið sem ráði því hvaða kost menn kjósi. Hraðinn við að fá vöruna til sín er eitt atriði en þá er spurning hvort við þurfum að hafa sama hraðann á að koma mjólkurvöru landshorna á milli og traktorsgröfum. Þegar það gerist að allt vegakerfi landsins er hannað með það í huga að hægt sé að flytja þungavélar á vegunum, þá eru menn ekki á neinni skynsemisbraut enda hlýtur það að stríða gegn þjóðarhag.

Ég vil leggja áherslu á það sem kom fram í máli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur um viðhorfið, um afstöðu okkar og viðhorf. Ef það er þjóðhagslega skynsamlegra að beina flutningunum á sjóinn af vegunum í nánast öllu tilliti, peningalegu, með tilliti til umhverfisins eða hvernig sem á málið er litið, þá er okkar sameiginlega verkefni að hrinda þessu í framkvæmd. Það er málið. Við erum ekkert niður njörvuð í einhverri einni leið til að ná því markmiði fram. Það sem við viljum gera er að efla strandsiglingar, koma þeim á að nýju og það er rétt sem kom fram í máli Guðmundar Hallvarðssonar að fjárfestingin er til staðar, hafnirnar eru til staðar. Þær eru notaðar fyrir fiskiskip og krefjast viðhalds og áframhaldandi fjárfestingar þannig að einnig er á þetta að líta. Með öðrum orðum, það er mjög gott að hlusta á hve jákvætt menn almennt taka í þessar tillögur en að sjálfsögðu þarf að skoða þær rækilega í samgöngunefnd.