131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Strandsiglingar.

161. mál
[16:44]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það var margt athyglisvert sem kom fram í máli hv. þm. Hjálmars Árnasonar. Mig langar að nefna eitt, vegna þess sem hann sagði um strandferðirnar og flutningana á Vestfirði og nefndi þar skipið Jaxlinn, að eftir áreiðanlegum heimildum sem ég hef er þetta skipafélag búið að kaupa tvö skip til viðbótar. Að vísu er þá hugmyndin að bæta við einu skipi í strandflutninga. Fram hefur komið hjá Eimskipafélagsmönnum að þeir muni jafnvel eftir 1. desember nota þá þjónustu ef það hentar þeim.

Ég vil einnig segja að ég hef margvitnað til skýrslu nefndar um flutningskostnað sem var sett á laggirnar af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hún var skipuð þremur aðilum úr iðnaðar-, samgöngu- og fjármálaráðuneytinu og þeir unnu gott verk. Þar kom m.a. fram eins og hv. þm. Hjálmar Árnason kom inn á varðandi flutningana til og frá hinni dreifðu byggð, að það er annars vegar matvaran sem mun verða áfram á vegum hvort sem okkur líkar betur eða verr og síðan er það hinn ferski fiskur eða svokallaði flugfiskur sem er í vaxandi mæli fluttur af hinni dreifðu byggð á Keflavíkurflugvöll.

En það sem kom fram almennt í máli manna þegar verið var að ræða um þessa flutninga, af hverju land en ekki sjór o.s.frv., að það beri að nota strandflutninga þegar því verði við komið, en þó kom fram hjá mönnum að strandferðaskipin séu vondur kostur. Tíðni og ferðatími skipti þar miklu máli. Það er það sem ræður þessu, það eru þessar vikulegu siglingar. Það líða sjö dagar á milli. Það er stór hluti af málinu. En bæði matvara og auðvitað ferskur fiskur mun verða áfram á þjóðvegum hvort sem okkur líkar það betur eða verr.