131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Strandsiglingar.

161. mál
[16:54]

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að menn litu á það að samkeppni milli Samskipa og Eimskipafélagsins og hugsanlega annarra mundi keyra verð niður og halda uppi góðri þjónustu eins og gerðist um hríð. Síðan verður þessi breyting og af hverju verður hún? Ein ástæðan er örugglega sú þróun sem ég nefndi áðan sem hefur orðið með flutning ferskfisks og flugfisks. Þessi vara þolir ekki sjóflutning, tíminn einfaldlega leyfir það ekki. Ýmislegt kann óneitanlega síðan að vera til í því sem hv. þm. nefnir hvað varðar hina glæsilegu útrás, ég segi glæsilegu útrás íslenskra skipafélaga. Þau hafa verið að hasla sér völl í alþjóðasiglingum ekki bara hingað til lands heldur í alþjóðlegu umhverfi og milli landa erlendis án þess að skip þeirra komi hingað og þar með eru fyrirtækin e.t.v. orðin svo stór að áherslur þeirra liggja þar. En þá er líka hægt að gagnálykta og segja: Skapast þá ekki einmitt tækifæri fyrir minni fyrirtæki eins og Jaxlinn er mjög gott dæmi um? Þar eru komnar aðstæður fyrir minni fyrirtæki sem einbeita sér að því að finna sér markað og skipuleggja sig og vinna með markaðnum. Þau gætu einbeitt sér að þessu tiltekna verkefni og í krafti smæðar sinnar ættu þau að geta blómstrað sem er e.t.v. erfiðara fyrir stór fyrirtæki á tiltölulega litlum markaði. Þetta kann að vera ein af skýringunum en hér er einnig spennandi verkefni fyrir samgöngunefnd að fara yfir þegar við tökum þetta þingmál til skoðunar.