131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Strandsiglingar.

161. mál
[17:02]

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. að við eigum að skoða þjóðveg eitt. Ég lít svo á að það hafi verið áhersla okkar á síðustu árum og áratugum og hafa orðið ótrúlegar framfarir þar en erum þó ekki alveg búin að loka hringveginum. Það stendur fyrir dyrum að fara í endurskoðaða samgönguáætlun og þá eru einmitt verkefni þingsins og samgöngunefndar að skoða atriði eins og hv. þm. benti á, að taka af hæstu hóla, verstu beygjur og þar fram eftir götunum.

Hins vegar megum við ekki gleyma því að enn þá búa mörg landsvæði við dapurleg skilyrði og eru ekki að berjast við hæðir, hóla og beygjur heldur að ná sér auðveldlega upp úr drullu og aur og er það einfaldlega ekki bjóðandi.

Það sem veldur mér hins vegar mestum áhyggjum er að þegar lagt var í þetta mikla uppbyggingarstarf á vegakerfi okkar, og ber að þakka það sem vel hefur verið gert, er það hannað og forsendur miðaðar við umferð sem þá var ráðandi. Það sem hefur verið að breytast er að flutningarnir hafa verið að færast í vaxandi mæli af sjó og yfir á þjóðvegina með miklu stærri, fleiri og þyngri bílum en ef til vill vegakerfið er hannað fyrir. Hvaða langtímaáhrif mun það hafa þegar stórir trukkar með tengivagna mylja ekki aðeins yfirborðslagið heldur líka undirstöðurnar? Þar kunnum við að sjá fram á gífurlegan kostnað við að endurbyggja það sem þegar hefur þó verið gert. Þetta eru stærstu áhyggjur mínar.