131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Strandsiglingar.

161. mál
[17:06]

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það. Við þurfum að skoða erfiðustu hjallana á þjóðvegi 1, en jafnhliða megum við ekki gleyma öðrum vegum. Má nefna að í kringum 70 einbreiðar brýr eru á hringveginum, á þjóðvegi 1, og mikið úrlausnarefni sem okkur ber að fara í að leysa það vegna þess að einbreiðar brýr kalla á slysahættu, ég tala nú ekki um þegar umferðin er að vaxa á þjóðvegunum. Við megum hins vegar ekki gleyma okkur í samgönguáætluninni um hvaða vegir eru mikilvægastir að fara í lagfæringar á. Við ræðum um þá breytingu sem verður 1. desember þegar sjóflutningar eru allir komnir á land og til hvaða úrræða ber að grípa. Það er verðugt verkefni samgöngunefndar sem við munum glíma við. Ég tek undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að þetta er kannski eitt af þeim málum sem getur orðið nokkuð góð þverpólitísk samstaða um og ber að fagna því, sérstaklega í virðulegum þingsal.