131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Strandsiglingar.

161. mál
[17:07]

Örlygur Hnefill Jónsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ekki minnkar óeining okkar hv. þm. Hjálmars Árnasonar eftir því sem við tölum lengur hvor við annan úr þessum stóli. Ég er innilega sammála hv. þm. um að einbreiðum brúm verður að fækka. Ég var áðan að leggja góð orð til stjórnvalda um að þau hefðu um margt staðið sig vel í samgöngumálum og ítreka það því oftar heyrir maður skammirnar en þakkirnar. Þó er nýverið búið að breikka brú við rætur Holtavörðuheiðar og fyrsta einbreiða brúin á leiðinni Reykjavík–Akureyri er Síká í Hrútafirði. Það er nýbúið að tvíbreikka brú yfir Hrúteyjarkvísl sem er steinsnar frá Hriflu, ekki nema eins og kílómetri frá þeim merka bóndabæ í minni sveit. (Gripið fram í.) Það þarf að bæta þá hluti og er verið að gera það.

En eins og ég hef sagt áður hef ég mestar áhyggjur af þungaflutningum, erfiðum þröskuldum sem þarf að fara yfir. Ég mæli eindregið með hagkvæmum vegstyttingum og geti maður bent á vegstyttingu sem borgar sig á tæpum þremur árum, tveimur og hálfu ári, verður að skoða svoleiðis mál. En það má ekki gleyma þeim sem búa við slæmar samgöngur. Við hv. þm. Hjálmar Árnason deilum skoðunum í því máli.