131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Skipan nefndar á vegum fjármálaráðuneytis.

[15:04]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa nokkurri furðu minni á því að mál af þessu tagi skuli tekið upp undir liðnum um störf þingsins. Ég tel að hér sé um að ræða tilraun til að drepa á dreif og kasta rýrð á merkilegt framtak sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að ráðast í til þess að koma hreyfingu á stofnanakerfi ríkisins og rekstur verkefna á vegum þess. Það er verið að drepa þessu góða máli á dreif með málflutningi af því tagi sem við heyrðum hér áðan. Markmiðið með þessari nefnd er að reyna að vinna að auknum sveigjanleika og meiri hagræðingu í ríkisrekstrinum.

Þessi starfshópur mun starfa tímabundið. Hann er samsettur á grundvelli tilnefninga frá fjórum ráðherrum og tilviljun ein réði því að fjórir karlmenn sitja í hópnum og engar konur. Ég tel reyndar að kynferði nefndarmanna sé aukaatriði hvað varðar efnisatriði þessa máls og ég hélt satt að segja að við í stjórnmálum á Íslandi og á Alþingi værum komin lengra í umræðum okkar um jafnréttismál en svo að við þyrftum að rjúka upp til handa og fóta út af einni tiltekinni nefnd sem skipuð er tímabundið til verkefna. (Gripið fram í: Hún fær sinn tíma.) Mér þætti vænt um ef fyrirspyrjandi mætti vera að því að hlusta á skýringarnar sem hér eru gefnar. Hér er um að ræða tímabundna nefnd og kynferði nefndarmanna kemur efnisatriðum þessa máls ekki við að mínum dómi.

Fjármálaráðuneytið stendur mjög vel að jafnréttismálum. Hlutfall kvenna í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ráðuneytisins er hátt miðað við önnur ráðuneyti, fjöldi kvenna meðal sérfræðinga í ráðuneytinu er mjög mikill. Við störfum eftir sérstakri jafnréttisáætlun en um þessa nefnd er það að segja að tilviljun ræður því hvernig hún skipast að þessu leyti til. Það er ekkert hneykslismál að í henni séu karlar, ekkert frekar en ef í henni væru bara tómar konur. Er ekki frétt um það í Morgunblaðinu í dag að þrjár konur hafi farið á vegum þingsins til Evrópuráðsins og engir karlar? Er það ekki hneykslismál, hv. þingmaður?