131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Skipan nefndar á vegum fjármálaráðuneytis.

[15:09]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur fyrir að vekja athygli á þessu máli hér og mér finnst fullkomlega málefnalegt að taka það til umræðu á þinginu.

Nú er það alveg rétt sem fram kom í máli hæstv. fjármálaráðherra að vegna tilviljana getur það gerst að nefndir séu aðeins skipaðar körlum eða konum. Það getur gerst. En menn geta líka stýrt ákvörðunum sínum í samræmi við jafnréttisáætlun sem Alþingi hefur samþykkt. Þannig hefði hæstv. fjármálaráðherra getað hagað ákvörðun sinni á þann veg þegar hann fékk tilnefningar frá öðrum ráðuneytum um karla í nefndina að skipa sjálfur konu.