131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Skipan nefndar á vegum fjármálaráðuneytis.

[15:12]

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar ég las fréttatilkynninguna um skipan þessarar nefndar og sá að þarna voru einungis karlmenn leið mér eins og ég byggi í samfélagi einhvers staðar á miðöldum. Þegar ég heyrði síðan svar hæstv. fjármálaráðherra áðan við fyrirspurn minni leið mér eins og ég væri komin eitthvað aftur á víkingatímann vegna þess að svarið var eintómar gamlar klisjur og eiginlega ekki boðlegar.

Ég verð að segja alveg eins og er að það kemur fyrir í allri þessari umræðu um jafnréttismál að maður verði frekar leiður en reiður því að það er augljóst að við konur, og karlar auðvitað líka, jafnréttissinnar, þurfum endalaust að vera á tánum. Það er árið 2004 og það var verið að skipa nefnd einungis með fjórum karlmönnum. Þetta er ekki boðlegt, virðulegi forseti, en það sem maður veltir fyrir sér er hvað hægt sé að gera til að menn fylgi sínum eigin áætlunum sem eru í jafnréttisáætlun til fjögurra ára. Manni dettur helst í hug hvort það væri réttast að beita ráðherra fésektum fari þeir ekki að samþykktum Alþingis í þessum efnum. Það er kannski tungumál sem þeir skilja, tungumál peninganna því að ekki virðast þeir skilja hugtakið jafnrétti.

Virðulegi forseti. Ég er hér með 12 eintök af umræddri jafnréttisáætlun sem ég vil afhenda hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Ég geri þá kröfu að þau kynni sér hana vel og gangi með hana á sér svo að þau verði sér ekki aftur til skammar með þeim hætti sem þau hafa gert nú. Telji ráðherrar ríkisstjórnarinnar sig ekki bundin af samþykktum Alþingis tel ég þau ekki vera starfi sínu vaxin og það er þannig í þessu máli. Alþingi getur allt eins farið heim miðað við þann sýndarveruleika sem við búum við, ef samþykktir okkar eru ekki virtar af framkvæmdarvaldinu.