131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Skipan nefndar fjármálaráðuneytis.

[15:14]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það var afar vond ræða sem hæstv. fjármálaráðherra flutti hér áðan og það kom mér á óvart hvað hann var hvumpinn yfir þeirri góðu ábendingu sem hann fékk. Eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra áðan var það tilviljun eða óheppni að mál skipuðust eins og þau gerðu. Ég hefði talið, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra ætti að grípa einmitt inn í þetta við slíkar aðstæður og skipa konu í þessa nefnd til að leysa úr eða takast á við það ólán eða óheppni sem átti sér stað við skipunina.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að taka þessari ábendingu vel, skipa konu í nefndina og takast þannig á við verkefnið í anda þeirrar jafnréttisáætlunar sem hefur verið samþykkt í stað þess að flytja hér þá vondu ræðu, virðulegi forseti, sem hæstv. ráðherra flutti hér áðan. Eins og hefur komið fram virðist hæstv. ráðherra ekki hafa fylgst með þeirri þróun sem átt hefur sér stað í umræðu um jafnréttismál.