131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Skipan nefndar fjármálaráðuneytis.

[15:16]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Litlu verður nú Vöggur í Samfylkingunni feginn. Hér er hann allt í einu kominn með það sem hér hefur verið kallað mál, hneyksli, eitthvað til að velta sér upp úr, eitthvað til að kalla sjónvarpsstöðvarnar til og láta mynda þann skrípaleik þegar verið er að leggja hér á borðin eins og hver annar þingvörður skjöl sem allir ráðherrar eiga og hafa aðgang að.

Alveg eins og í gærkvöldi þegar Samfylkingin uppgötvaði þetta, þá var auðvitað hringt í ríkissjónvarpið sem tekur fullan þátt í þessu. Það hefur verið mikill fréttaskortur hjá sjónvarpsstöðinni í gærkvöldi úr því að þetta skyldi verða ein aðalfréttin. Af hverju er talað við þennan þingmann en ekki einhvern annan? Auðvitað vegna þess að þingmaðurinn hefur sjálfur gefið sig fram við sjónvarpsstöðina. Það sjá allir í gegnum þetta.

Málefnaþurrð Samfylkingarinnar er slík að hún þarf að koma með svona gervimál inn á Alþingi helgina sem hún heldur flokksstjórnarfund. Hún hefur ekkert betra fram að færa. Örvænting þingmanna Samfylkingarinnar er slík og vandamál þeirra við að koma sér í fréttirnar, troða sér í sviðsljós fréttanna, að það þarf að draga upp þvílíkt mál, eins og þingmenn segja hér, hneykslismál.

Ég segi að það er málflutningur Samfylkingarinnar sem er hneyksli. Ef menn kynna sér hvernig þessi mál eru í pottinn búin sjá það allir. Fjármálaráðuneytið vinnur eftir sérstakri jafnréttisáætlun en hér er ekki um að ræða venjulega nefnd á vegum þess. Það er ævinlega fylgt 20. gr. jafnréttislaga þegar ráðuneytið skipar í nefndir. Þetta er samstarfsnefnd á vegum ráðherranna í ríkisstjórninni, á vegum ríkisstjórnarinnar, og þess vegna er þetta mál svo vaxið sem raun ber vitni. (Gripið fram í.)

Út í hafsauga með þennan málflutning og þessi frammíköll þingmanna Samfylkingarinnar sem hér hafa ævinlega ekkert fram að færa nema frammíköll, öskur, skvaldur og fliss.