131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Rússneskur herskipafloti við Ísland.

[15:26]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Á 20 ára bili, frá því um 1970 fram undir 1990, urðum við vitni að stöðugum vexti sovéska herflotans á Norður-Atlantshafi. Var þá gripið til öflugra gagnráðstafana til að stemma stigu við ógninni af honum hér á landi og annars staðar. Vöktu þær ráðstafanir oft ákafar deilur, m.a. hér á Alþingi, t.d. þegar ákveðið var að efla ratsjárvarnir landsins í samvinnu við Bandaríkjaher innan vébanda Atlantshafsbandalagsins. Ratsjáreftirlit er að sjálfsögðu mikilvægt þegar um er að ræða æfingar flugmóðurskips við landið.

Eftir hrun Sovétríkjanna lagðist flotinn mikli á Kólaskaga Rússlands við festar og mörg skipa hans eru ónýt eða illa haffær. Hinn 24. september sl. afhenti fulltrúi sendiráðs Rússlands íslenska utaríkisráðuneytinu orðsendingu þess efnis að floti Rússlands áformaði að senda herskipasveit ásamt flugmóðurskipinu Admiral Kúsnetsov til margvíslegra æfinga á norðurhluta Atlantshafs 25. september til 25. október og yrði m.a. æft flug herflugvéla og þyrlna frá borði flugmóðurskipsins.

Á hefðbundnu gæsluflugi hinn 29. september varð Landhelgisgæslan fyrst vör við fimm rússnesk herskip, beitiskip, tundurspilli, birgðaskip og tvö björgunarskip, fyrir akkeri á Digranesgrunni út af Vopnafirði. Var að nýju flogið yfir fimm herskip þarna 2. október og síðar þann sama dag sást rússneska orrustubeitiskipið Pétur mikli á siglingu um 24 sjómílur austnorðaustur af akkerisstað skipanna fimm.

Hinn 9. október voru sjö rússnesk herskip fyrir akkeri á Þistilfjarðargrunni, 8–15 sjómílur utan við 12 sjómílna mörkin, sömu sex skip og áður og flugmóðurskipið Admiral Kúsnetsov og var það tengt með slöngu við birgðaskipið Sergej Osípov og sást úr lofti olíubrák á sjónum út frá skipunum. Við svo búið var varðskip sent á svæðið. Var það þar 10.–13. október og tóku varðskipsmenn m.a. sýni af olíubrákinni sem sást.

Hinn 11. október flaug P-3 Orion kafbátaleitarvél frá norska hernum yfir svæðið og jafnframt Nimrod-eftirlitsþota frá breska flughernum. Landhelgisgæslan flaug til eftirlits að morgni laugardags 16. október en þá voru skipin horfin af svæðinu.

Utanríkisráðuneytið óskaði hinn 11. og 14. október skýringa á ferðum herskipanna hjá rússneska sendiráðinu. Hinn 15. október ítrekaði íslenska sendiráðið í Moskvu beiðni um skýringar. Þann sama dag barst tilkynning frá rússneska utanríkisráðuneytinu um að æfingunni væri lokið og að skipin væru á förum af svæðinu út af Þistilfirði. Rússnesk stjórnvöld fullyrða að æfingin hafi verið áfallalaus.

Rætt hefur verið um kjarnorkuhættu af skipunum. Flugmóðurskipið, hið eina í rússneska flotanum, er ekki kjarnorkuknúið. Á sl. sumri var það í viðgerð og kom úr henni í september. Orrustubeitiskipið Pétur mikli er kjarnorkuknúið og það var einnig í viðgerð á liðnu sumri fram undir lok ágúst.

Rússum er samkvæmt alþjóðalögum heimilt að stunda flotaæfingar eins og þessar. Hvorki alþjóðasamningar né hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna bannar slíkar æfingar. Samkvæmt íslenskum lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda nær íhlutunarréttur Landhelgisgæslunnar ekki til herskipa.

Eftir hrun Sovétríkjanna eru nýmæli að rússnesk herskip séu við æfingar svo fjarri heimahöfn á Kólaskaga. Hvort æfingar þeirra nú séu til marks um þáttaskil í ferðum rússneskra skipa á Norður-Atlantshafi skal ekkert fullyrt. Fyrir 30 árum hóf sovéski flotinn sókn út á Norður-Atlantshaf til að ná þar hernaðarlegum yfirburðum en þau markmið náðust ekki vegna öflugra gagnráðstafana. Æfingar rússneska flotans nú byggjast ekki á sambærilegri stefnu og Sovétstjórnin fylgdi á sínum tíma. Gagnráðstafanir eru þess vegna ekki af sama toga og áður.

Íslensk stjórnvöld munu fylgjast náið með framvindu mála og leggja mat á þróunina í samvinnu við yfirvöld ríkja við Norður-Atlantshaf og sérstaklega við Bandaríkjastjórn á grundvelli varnarsamnings ríkjanna.