131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Rússneskur herskipafloti við Ísland.

[15:33]

Jónína Bjartmarz (F):

Herra forseti. Málið um Rússaskipin vekur athygli á því að þörf er að huga að málefnum Landhelgisgæslunnar og þeim búnaði sem hún hefur yfir að ráða. Orion-flugvélar sem löngum hafa haldið uppi eftirliti með umferð um íslenska lögsögu eru ekki staðsettar hér lengur frekar en aðrar eftirlitsflugvélar. Þær flugvélar sinna verkefnum sem Bandaríkjaher telur brýnni en eftirlit með íslenskri lögsögu og þó má ætla að varnarliðið hafi fylgst með ferðum flotans með ratsjá.

Ljóst er af fréttum fjölmiðla að á meðan flotinn var á ferð um alþjóðlegt hafsvæði undan landinu hafi Landhelgisgæslan ekki haft tök á að fylgjast með ferðum hans jafnreglulega og æskilegt mætti teljast. Það þurfti að sinna reglulegu eftirliti Fokker-véla Gæslunnar á þessu tímabili og á meðan var gripið til þess ráðs að leigja flugvél Flugmálastjórnar til að fljúga yfir og kanna ferðir flotans.

Herra forseti. Ég vil leggja áherslu á að eðlilegt er að taka málið til umfjöllunar á Alþingi og eðlilegt að huga að því í framhaldinu hvernig rétt sé að byggja upp Landhelgisgæsluna til að tryggja að yfirleitt sé fullnægjandi eftirlit með íslenskri landhelgi og íslenskri fiskveiðilögsögu. Ekki síst er það þarft með tilliti til þess að líkur hafa verið leiddar að því að hér hafi verið á ferð kjarnorkuknúin skip sem eru, a.m.k. á ófriðartímum, búin kjarnavopnum.

Herra forseti. Ábyrgðin á verndun fiskveiðilögsögu okkar kallar á fastmótaðar áætlanir um viðbrögð í þeim tilvikum sem hér um ræðir.